Innlent

Gekk nakinn eftir Laugaveginum

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjöldi fólks fer um Laugaveginn á degi hverjum.
Fjöldi fólks fer um Laugaveginn á degi hverjum. Vísir
Laugavegurinn státar jafnan af fjölbreyttu mannlífi og ekki síst nú í sumar þar sem fjöldi ferðamanna er vanalega þar á ferð á hverjum degi. Nú í morgun blasti við óvenjuleg sjón því nakinn karlmaður sást ganga eftir götunni. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til og hafði afskipti af manninum.

Þess ber að geta að ekkert ákvæði í hegningar- eða lögreglulögum leggur blátt bann við nekt á almannafæri. Á Vísindavef Háskóla Íslands er tekið fram að í 209. grein hegningarlaga sé að finna bann við því að særa blygðunarkennd manna með lostugu athæfi en sennilega þyrfti meira til en bara nekt á almannafæri til að brotið yrði fellt undir það ákvæði.

Á Vísindavefnum er þó tekið fram að í lögreglusamþykktum margra sveitarfélaga sé að finna ákvæði sem fela í sér bann við ósæmilegri háttsemi eða hegðun og getur nekt á almannafæri fallið þar undir. Ef nektin er til þess fallin að ögra fólki eða valda ónæði þá er líklegt að hún bryti gegn ákvæðum lögreglusamþykktar og nefnir Vísindavefurinn sem dæmi mann sem gengur nakinn niður Laugaveginn án sýnilegrar ástæðu.

Þessi uppákoma í morgun vakti því athygli viðstaddra og þá sér í lagi ferðamanna sem sáu manninn en samkvæmt sjónarvottum spurðu nokkrir: „Er þetta alltaf svona hérna?“

Uppfært klukkan 13:25:

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var maðurinn færður undir hendur lækna á geðheilbrigðissviði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×