Íslenska karlalandsliðið í körfubolta spilar í dag sinn þriðja leik á Evrópumótinu í Berlín en liðið mætir þá ósigruðu liði Serbíu.
Serbar hafa unnið Spán og Þýskalands í tveimur fyrstu leikjum sínum á sama tíma og íslenska liðið tapaði naumlega á móti Þjóðverjum og Ítölum.
Ísland mætti Serbíu tvisvar í undankeppni EM sumarið 2013 og tapaði í bæði skiptin, fyrst með 13 stigum í Laugardalshöllinni, 91-78, og svo með 56 stigum, 114-58. í Nis í Serbíu.
Níu af tólf leikmönnum íslenska liðsins í dag voru með í stórtapinu í Serbíu í lok ágúst 2012 og eiga því harma að hefna. Strákarnir mæta staðráðnir í að ná miklu betri úrslitum í dag.
Þeir þrír leikmenn sem voru ekki með fyrir þremur árum voru þeir Hörður Axel Vilhjálmsson, Martin Hermannsson og Ragnar Nathanaelsson. Í stað þeirra spiluðu þennan leik Brynjar Þór Björnsson, Finnur Atli Magnússon og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Jón Arnór Stefánsson var með 21 stig og 6 stoðsendingar í fyrri leiknum við Serbíu sumarið 2012, Pavel Ermolinskij skoraði 14 stig, tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og Hlynur Bæringsson var með 13 stig og 8 fráköst.
Í seinni leiknum var Jakob Örn Sigurðarson stighæstur með 14 stig en Hlynur Bæringsson var með 12 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar. Jón Arnór Stefánsson skoraði þá bara 2 stig á 17 mínítum.
Sjö Serbar skoruðu tíu stig í stóra tapinu í Serbíu og tveir að auki voru með 9 stig. Stighæstur var Nenad Krstic með 15 stig en hann er ekki með liðinu núna.
Leikur Íslands og Serbíu hefst klukkan 12.30 að íslenskum tíma og verður fylgst með honum hér á Vísi.
Níu af tólf voru með í síðustu leikjum á móti Serbum
Tengdar fréttir
Haukur Helgi: Sárabót eftir tapið að fótboltaliðið vann
Haukur Helgi Pálsson segir ekki séns að Ísland tapi aftur með 50 stigum gegn Serbíu.
Jakob: Aldrei verið í þessu hlutverki að koma inn á áður
Stórskytta íslenska liðsins vanari því að vera byrjunarliðsmaður en koma inn með kraft af bekknum.
Hreinsuðu hugann úti á miðju keppnisgólfi
Hlynur Bæringsson og félagar hans í íslenska körfuboltalandsliðinu mæta Serbum á Evrópumótinu í Berlín í dag, einu af liðunum sem menn spá Evrópumeistaratitlinum í ár