Innlent

Stór mál á síðustu stundu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Mynd/GVA
Ríkisstjórnin fundaði í tvígang í gær og fjögur stór og umdeild mál voru afgreidd. Þingflokkar stjórnarflokkanna funduðu einnig á milli ríkisstjórnarfunda og fram á kvöld. Gert er ráð fyrir að fundað verði aftur klukkan þrjú í dag.

Sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp um veiðigjöld og sérfrumvarp um veiðigjald á makríl. Í fyrrnefnda frumvarpinu er sagt fyrir um hvernig fyrirkomulag veiðanna verður, með aflahlutdeildarsetningu. Í makrílfrumvarpinu er lagt til viðbótarveiðigjald að fjárhæð 10 krónur á kíló.

Tillögur félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á húsaleigulögum og lögum um húsnæðissamvinnufélög voru lagðar fyrir ríkisstjórnina.

Búast má við löngum þingfundum um öll málin en þingmenn eru nú þegar komnir í páskafrí og aðeins 22 þingfundir á dagskrá áður en sumarfrí skella á.

Eygló Harðardóttir hefur þar að auki boðað tvö frumvörp til viðbótar um breytingu á húsnæðisbótum og stofnstyrki.

Þau eru enn í kostnaðarmati í fjármálaráðuneytinu. Ef ekki næst að leggja þau fyrir ríkisstjórnina í dag þarf að leggja þau fram með afbrigðum og hefur Eygló lagt mikla áherslu á að öll frumvörp hennar verði kláruð á yfirstandandi þingi, ella verði haldið sumarþing.

„Ef um er að ræða einhverja grundvallarbreytingu á húsnæðiskerfinu þá kallar það á mikla vinnu og það eru ekki margir dagar eftir. Ég legg áherslu á að það sé vandað til verka þótt það sé vissulega ánægjulegt að frumvörpin séu loksins komin fram,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×