Innlent

Sem hnefahögg í andlit aldraðra og öryrkja

Atli Ísleifsson skrifar
Kjaranefndin skorar á heilbrigðisráðherra að draga til baka lækkun á niðurgreiðslu á öryggishnöppum.
Kjaranefndin skorar á heilbrigðisráðherra að draga til baka lækkun á niðurgreiðslu á öryggishnöppum. Vísir/Getty
„Ríkisstjórnin hefur hækkað svo mikið komugjöld í heilbrigðiskerfinu og dregið svo mjög úr niðurgreiðslum á nauðsynlegum hjálpartækjum aldraðra, að þær takmörkuðu kjarabætur, sem aldraðir og öryrkjar fengu um sl. áramót hafa verið teknar til baka,“ segir í ályktun kjaranefndar Félags eldri borgara.

Í ályktuninni segir að stórlega hafi verið dregið úr niðurgreiðslum á öryggishnöppum með þeim afleiðingum að leiga fyrir afnot af þessum nauðsynlegu öryggistækjum eldri borgara hefur hækkað um 89%.  Allar þessar hækkanir séu sem hnefahögg í andlit aldraðra og öryrkja.

„Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík ítrekar áskorun sína  á heilbrigðisráðherra um að afturkalla hækkanir á komugjöldum í heilbrigðisþjónustu, sem tóku gildi um síðustu áramót svo og áskorun á ráðherra um að  afturkalla hækkanir á ýmsum stoðtækjum og hjálpartækjum, sem nauðsynleg eru fyrir aldraða  til þess að geta dvalist í heimahúsum í stað þess að fara á hjúkrunarheimili.

Komugjöld á heilsugæslustöðum hækkuðu um 20%  um sl . áramót og komugjöld til sérfræðinga hækkuðu um 19%. Dregið var svo mikið úr niðurgreiðslum á stoðtækjum og hjálpartækjum, að verð á þeim hefur stórhækkað.

Sjúklingar, sem þurfa á bleium að halda, þurfa nú að greiða 4-5000 kr. á mánuði fyrir þær en áður  voru þær ókeypis.  Kostnaður sjúklings af hjálpartæki vegna kæfisvefns hefur verið hækkaður um 77%.

Kjaranefnd skorar á heilbrigðisráðherra að draga til baka lækkun á niðurgreiðslu á öryggishnöppum.“


Tengdar fréttir

Breyting á akstri bitnar á eldri borgurum

„Þetta bitnar líka á eldri borgurum sem nýta sér þjónustuna, við erum búin að fá mikið af símtölum frá fólki,“ segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara, um ferðaþjónustu fatlaðra.

Fá ekki vinnu vegna aldurs

Kennitalan fælir atvinnurekendur frá því að ráða eldra fólk í vinnu þó það uppfylli allar kröfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×