Bíó og sjónvarp

Spectre sögð svöl og spennandi en falla fyrir gömlum klisjum

Birgir Olgeirsson skrifar
Daniel Craig snýr aftur sem James Bond í Spectre.
Daniel Craig snýr aftur sem James Bond í Spectre. vísir/getty
Nýjasta kvikmyndin um njósnara hennar hátignar, James Bond, hefur fengið ágætis dóma frá gagnrýnendum úti í heimi. Nokkrir dómar hafa verið teknir saman um Spectre á vef breska ríkisútvarpsins BBC en hún fær til að mynda fimm stjörnur frá gagnrýnanda breska dagblaðsins The Guardian, Peter Bradshaw. Hann segir Spectre hreinræktaða hasarmynd, hlaðin spennu og brjálæðislega skemmtileg.

Gagnrýnandi The Times segir Spectre vera þremur númerum of svöl á meðan gagnrýnandi The Independent segir hana vera jafningja forvera síns Skyfall sem kom út árið 2012.

Gagnrýnendur fengu að sjá Spectre í gær en hún verður frumsýnd á mánudag í Bretlandi en verður tekin til sýninga á Íslandi 6. nóvember næstkomandi.

Leikstjóri myndarinnar er Sam Mendes, sá hinn sami og leikstýrði Skyfall, en Daniel Craig fer með hlutverk njósnarans sem tekst á við glæpasamtökin Spectre.

Tvöfaldi Óskarsverðlaunahafinn Christoph Waltz fer með hlutverk í myndinni ásamt Lea Seydoux og Monicu Belluci. Þetta er 24. myndin í þessari langlífu kvikmyndaseríu.

Gagnrýnandi Daily Mirror segir myndina vera til jafns við bestu stundir njósnarans og að hún innihaldi magnaðar hasarsenur. Gagnrýnandi The Sun segir myndina innihalda allt það sem einkenni James Bond og að opnunarsenan sé hreint mögnuð.

Gagnrýnandi Variety tekur undir með The Sun og segir Spectre innihalda eina af bestu opnunarsenum í James Bond-seríunni, sem gerist í Mexíkóborg á degi hinna dauðu.

Aðrir miðlar sem gera út á kvikmyndaumfjöllun voru ekki eins hrifnir að sögn BBC. Til að mynda gagnrýnandi Hollywood Reporter sem segir Spectre vera verri mynd en Skyfall og að hún geri út á gamlar og þreyttar klisjur úr Bond-myndunum.

Screen International segir myndina fara eftir Bond-formúlunni og útkoman sé fremur flöt og gamaldags James Bond-mynd.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.