Lífið

Cumberbatch ósáttur: Biður áhorfendur að hætta að taka sig upp sem Hamlet

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Benedict Cumberbatch leikur Sherlock Holmes og nú Hamlet.
Benedict Cumberbatch leikur Sherlock Holmes og nú Hamlet. Vísir/Getty
Benedict Cumberbatch biður leikhúsgesti um að reyna ekki að taka upp Hamlet en leikarinn leikur titilhlutverk verksins sem var frumsýnt í London í síðustu viku.

Cumberbatch sagði við aðdáendur í lok sýningar eitt kvöldið að hann hefði tekið eftir rauðu blikkandi ljósi í áhorfendaskaranum á meðan hann flutti eina þekktustu ræðu verksins.  „Að vera eða ekki vera.“ Leikarinn sagði tökuvélina hafa blasið við í þriðju röð. Hér að neðan má sjá myndband af leikaranum ávarpa aðdáendaskarann.

„Þetta hefur verið svakaleg vika með hverja uppákomuna á fætur annarri,“ sagði Cumberbatch. „En það er ekkert verra sem leikari að standa á sviði og upplifa svona. Ég get ekki gefið ykkur það sem ég vil gefa ykkur.“

Leikarinn sagði að leikhúsið myndi setja upp tækni sem nemur upptökur og að áhorfendum sem brjóta reglurnar og reyna að taka upp verkið verði fleygt út.

Cumberbatch, sem þekktur er fyrir leik sinn sem Sherlock Holmes í samnefndum þáttröðum, er ekki sá fyrsti sem lendir í því að leikrit hans er tekið upp á filmu. James McAvoy gerði hlé á sýningu af Macbeth til þess að skamma manneskju í salnum sem tók flutning hans á verkinu upp. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×