Lífið

Jákvæð viðbrögð frá Rihönnu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
María Ólafsdóttir er ánægð með samstarfið við StopWaitGo.
María Ólafsdóttir er ánægð með samstarfið við StopWaitGo. Vísir/Solla Matt
„Við höfum notað röddina hennar Maríu til að selja lög úti og höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð, meðal annars úr herbúðum stórra söngkvenna eins og Jessie J og Rihönnu,“ segir Ásgeir Orri Ásgeirsson, meðlimur í íslenska upptökuteyminu StopWaitGo.

Teymið á lag í undankeppni í Eurovision en söngkonan María Ólafsdóttir syngur lagið, Lítil skref. Samstarf þeirra nær þó til ársins 2012 og hefur rödd Maríu hjálpað teyminu mikið í að selja sitt efni til erlendra listamanna.

Ásgeir segir að það ferli sem fylgi því að selja lög til þekktra nafna erlendis sé langt og flókið. „Lögin eru send á umboðsskrifstofur og þaðan á umboðsmenn sem eru að að leita að lögum fyrir sína listamenn. Lögin fara svo í gegnum umboðsmenn en ef þeir fíla lagið þá hlusta stjörnurnar á það og við vitum allavega að eitt lagið okkar fór langt í þessu ferli og átti möguleika á að lenda á plötu hjá Rihönnu.“

Hér er StopWaitGo og María Ólafs að taka upp í London.
María kann vel við samstarfið við strákana. „Það er að sjálfsögðu mikill heiður, ótrúlega gaman og skrítið um leið að vita af því að þekktir erlendir listamenn séu að hlusta á mig syngja. Af því ég er að syngja inn lögin fyrir aðra listamenn, þarf ég að vera tilbúin að setja mig í alls konar karaktera og það hefur ef eitthvað er aukið fjölbreytileika minn í söng,“ segir María. 

Breska stúlknasveitin The Saturdays hefur sýnt nýju lagi sem María syngur áhuga en fyrir skömmu gerði lag teymisins, Disco Love, það gott í Bretlandi í flutningi The Saturdays.

„Einu sinni var líka flogið sérstaklega til London með Maríu til þess að syngja inn bakraddir fyrir söngkonuna Bleonu, sem hefur meðal annars unnið með Timbaland,“ segir Ásgeir. „Bleona var svo hrifin af rödd Maríu, sem söng demóið, að hún gat ekki hugsað sér að klára lagið án þess að fá hana í bakraddir og var henni flogið til London samdægurs.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×