Innlent

Segir embættismenn raga við uppljóstranir

sveinn arnarsson skrifar
Frumvarp til laga átti að einfalda þagnarskylduákvæðið. Að mati höfunda frumvarpsins eru of mörg loðin og matskennd ákvæði í núverandi lögum.
Frumvarp til laga átti að einfalda þagnarskylduákvæðið. Að mati höfunda frumvarpsins eru of mörg loðin og matskennd ákvæði í núverandi lögum.
Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum sem áttu að einfalda og samræma lagaákvæði um þagnarskyldu opinberra starfsmanna hefur ekki komið inn í þingið þrátt fyrir að hafa verið á þingmálaskrá forsætisráðherra á síðasta þingi. Í þingmálaskrá yfirstandandi þings er frumvarpið ekki á dagskrá.

Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata
„Þetta frumvarp er mjög mikilvægt að nái fram að ganga,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.

Eitt mikilvægasta ákvæðið í drögunum er að þagnarskylda opinberra starfsmanna nái ekki undir lögbrot eða aðra háttsemi sem sé ámælisverð og varði hagsmuni þjóðarinnar.

Frumvarpið átti að skýra reglur um þagnarskyldu opinberra starfsmanna og þann 18. nóvember árið 2013 var óskað eftir umsögnum um frumvarpsdrögin. Frumvarpið var samið af Páli Hreinssyni, fyrrverandi dómara við Hæstarétt. Að endingu varð ekkert af því að frumvarpið yrði lagt fram á þingi og ekki er stefnt að því að leggja það fram á yfirstandandi þingi.

Í íslenskum lögum eru eitt hundrað ákvæði um þagnarskyldu í íslenskum lögum. Með frumvarpinu átti að einfalda lögin og setja eitt stefnumarkandi ákvæði sem auðveldara væri að fylgja eftir. Einnig var lagt til að 35 þagnarskylduákvæðum yrði breytt í því skyni að fækka ófullkomnum og afar matskenndum þagnarskylduákvæðum sem gilda um starfsmenn stjórnsýslunnar, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu. „Það skiptir einnig miklu máli fyrir starfsmenn að hafa þessi lög á hreinu. Á meðan fólk innan stjórnsýslunnar er í vafa hvenær það eigi að þegja eða segja mun það ekki þora að segja frá slæmri stjórnsýslu eða lögbrotum ef það getur átt á hættu að brjóta lög um þagnarskyldu. Ég veit um starfsmenn innan stjórnsýslunnar sem bíða eftir þessum lögum.“ segir Birgitta Jónsdóttir.

Jóhannes Þór Skúlason
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, segir þetta frumvarp vera í meðferð í ráðuneytinu og stefnt sé að því að það komi til Alþingis haustið 2015. „Þetta frumvarp er í vinnslu í ráðuneytinu. Óskað var eftir umsögnum um frumvarpið á sínum tíma. Ýmsar athugasemdir bárust sem þurfti að skoða og taka tillit til. Stefnt er að því að talað verði fyrir frumvarpinu næsta haust,“ segir Jóhannes Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×