Bjarni sagði í samtali við fréttastofu RÚV á laugardag að hann teldi málið hafa þvælst of lengi hjá embættinu og ekki stæði á stuðningi fjármálaráðuneytisins. „Það má vera að ég hafi verið kannski of óþolinmóður,“ segir Bjarni en bætir við að hann telji málið samt sem áður hafa tekið of langan tíma.
Fréttablaðið hefur greint frá því undanfarið, fyrst í apríl í fyrra, að skattrannsóknarstjóra stæðu slík gögn til boða. Fjármálaráðuneytinu var tilkynnt um að embættinu hefði borist sýnishorn af gögnunum með nöfnum nokkurra hundraða Íslendinga sem tengjast skattaskjólum og að þau gæfu vísbendingar um skattaundanskot.
Bæði embætti skattrannsóknarstjóra og fjármálaráðuneytið sendu frá sér yfirlýsingar í gær um málið.

Bjarni segir að á fundi ráðuneytisins með Bryndísi Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra hafi ráðuneytið játað því að til greina kæmi að standa að greiðslu með þeim hætti.
Í yfirlýsingu skattrannsóknarstjóra segir enn fremur að ráðuneytið hafi í desember tilkynnt að það vildi tryggja nauðsynlegar fjárheimildir, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þar á meðal að greiðslur séu skilyrtar við hlutfall af innheimtu. Ekki hafi verið unnt að ná samningum með þessum skilyrðum við sendandann og að afstaða ráðuneytisins til þess að endurskoða þessi skilyrði þurfi að liggja fyrir.
Bjarni segir skilyrðið um árangurstengdar greiðslur hafa fyrst komið fram hjá skattrannsóknarstjóra sem þekkt aðferð við svona viðskipti. „Þetta var ekki eitthvert fortakslaust skilyrði af hálfu fjármálaráðuneytisins, heldur var þetta þekkt aðferðarfræði samkvæmt því sem okkur var sagt,“ segir Bjarni.
Í yfirlýsingu fjármálaráðuneytisins kemur fram að gögnin séu föl fyrir 150 milljónir króna eða 2.500 evrur fyrir hvert mál, en málin eru samtals 416 talsins.
„Skylda til mats á upplýsingum þeim sem í boði eru, að hversu miklu gagni þær geta komið við rannsókn á skattundanskotum og ákvörðun um kaup á þeim liggur hjá embætti skattrannsóknarstjóra en fjármála- og efnahagsráðuneytið er tilbúið að greiða fyrir kaupunum, verði það niðurstaða embættisins,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.