Viðskipti innlent

Bankastjóri Arion banka segir gagnrýnina skiljanlega

Una Sighvatsdóttir skrifar
Rúmlega sex hundruð tuttugu og tveggja milljóna króna velta var með hlutabréf Símans á fyrsta degi félagsins á markaði. Forstjórar bæði Símans og Arion banka segjast sáttir við hvernig staðið var að málum.

Forstjóri Símans hringdi inn fyrstu viðskipti með bréf félagsins á aðalmarkaði Nasdaq í morgun og strax á fyrstu klukkustund nam velta af sölu bréfanna 164 milljónum króna. Aðdragandinn hefur verið umdeildur, einkum hvernig Arion banki stóð að sölu síns hlutar í fyrirtækinu.

Skilur gagnrýnina

„Við höfum bara talið okkur standa vel að þessu og erum í sjálfu sér bara ánægð með niðurstöðuna. Við erum í sjálfu sér ekki ánægð með gagnrýnina, en verðum bara að taka henni og við skiljum auðvitað rótina á því,“ segir Höskuldur H. Ólafsson forstjóri Arion banka.

Gagnrýnin snýr einkum að því að Arion banki hafi selt sérvöldum fjárfestum hálfs milljarðs króna hlut á hagfelldara gengi en öðrum bauðst. Höskuldur segist hafa skilning á gagnrýninni en að ákvörðun um að selja á genginu 2,5 hafi verið tekin fyrr á árinu og ekki hafi verið hægt að sjá fyrir þá hvernig skráningin myndi takast á markaðnum.

„Auðvitað óskar maður þess ekki að svona neikvæð umfjöllun komi. Mér hefur nú ekki fundist þetta allt málefnalegt, en við þurfum náttúrulega að sitja undir því og þola það og hlusta á gagnrýni. Svo tökum við bara tillit til þess eftir atvikum," segir Höskuldur.

Hafnar ásökunum um markaðsmisnotkun

Guðlaugur Þór Þórðarson hefur beint því til Bankasýslu ríkisins hvort salan á eignarhlut Arion banka hafi mögulega falið í sér markaðsmisnotkun. Orri Hauksson, forstjóri Símans, neitar því að ólga sé innan stjórnar fyrirtækisins vegna málsins.

„Ég reyndar skil ekki hvernig er hægt að koma markaðsmisnoktun inn í þetta, því það gengur yfirleitt út á að halda uppi  óeðlilega háu verði. Þarna var gagnrýnin að á einhverjum tímapunkti hefði verið selt á lágu verði.  Í tilfelli okkar sem að stóðum fyrir því að fá hér erlenda og innlenda fjárfesta til að fjárfesta með stjórnendum, þá vakti það fyrir okkur að styrkja félagið til lengri tíma. Þetta er ekki spretthlaup, þetta er langhlaup. Við sem ætlum að starfa hér og vinna að hag félagsins til lengri tíma erum fyrst og fremst að hugsa um það, en ekki nákvæmlega hvað sagt er kannski í hita dagsins í dag."


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×