Erlent

192 handteknir eftir átök glæpagengja í Texas

Atli Ísleifsson skrifar
Upphaf átakanna má rekja til deilna um bílastæði.
Upphaf átakanna má rekja til deilna um bílastæði. Vísir/AP
Lögregla í Texas hefur handtekið 192 manns í kjölfar átaka fimm mótorhjólagengja í Waco í Texas í gær. Níu manns voru drepnir og átján særðust í bardaganum sem varð á bílstæði í verslunarhverfi í borginni.

Samkvæmt lögreglunni hófust átökin með slagsmálum, en fljótlega voru dregnir upp hnífar, keðjur og byssur. Allir þeir sem létust eru úr mótorhjólagengjunum.

Í frétt BBC segir að upphaf átakanna megi rekja til deilna um bílastæði.

Lögreglan vissi af því að meðlimir gengjanna væru að safnast saman í og í kringum veitingahús og voru lögregluþjónar viðstaddir þegar skothríðin hófst. Í fyrstu byrjaði skothríðin inni á veitingahúsinu og barst hún síðar út á götu. Þar tóku lögreglumenn þátt í átökunum og létust nokkrir eftir skot lögreglumanna.

Viðbúnaður lögreglunnar í Waco hefur verið aukinn, auk þess að forsvarsmönnum verslana í miðbæ Waco var skipað að loka snemma í gær. Meðal gengjanna fimm eru Banditos og Cossaks.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×