Innlent

Helmingur kjósenda Bjartrar framtíðar kysi nú Pírata

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þingflokkur Pírata
Þingflokkur Pírata vísir/vilhelm
Píratar mælast enn stærstir íslenskra stjórnmálaflokka. Þetta eru niðurstöður nýrrar mælingar MMR á fylgi stjórnmálaflokkanna. Píratar mælast nú með 32,7% fylgi sem er ríflega hálfu prósenti hærra en í síðustu könnun sem framkvæmd var í apríl.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst um rúmlega prósent og Samfylkingin bætir við sig tveimur prósentum. Vinstri-grænir standa nánast í stað en fylgi Bjartrar framtíðar og Framsóknarflokksins minnkar, Framsókn um eitt og hálft prósent en Björt framtíð um tvö.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst lítillega eða úr 30,7% upp í 31,4%. Karlar voru líklegri en konur til að styðja Pírata meðan konur hölluðu sér frekar að Vinstri-grænum eða Bjartri framtíð. Píratar voru vinsælir hjá ungum kjósendum meðan eldri kjósendur sögðust frekar kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða Samfylkinguna.

Fylgi stjórnmálaflokka landsinsmynd/mmr
Í niðurstöðum mælingarinnar kemur einnig fram að Píratar laða fylgi að sér frá öllum flokkum. Til að mynda segist ríflega helmingur þeirra sem kaus Bjarta framtíð muna kjósa Pírata yrði gengið að kjörborðinu nú. Þriðjungur kjósenda Framsóknarflokksins hallast nú að Pírötum og sama má segja um fimmtung kjósenda Samfylkingar og Vinstri-grænna. Framsóknarflokkurinn tapar einnig 11,6% prósentum kjósenda sinna til Sjálfstæðisflokksins.

Mælingin var framkvæmd dagana 15.-20. maí og svöruðu 932 einstaklingar átján ára og eldri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×