Körfubolti

Jón Arnór í 9. sæti í stigum og í 3. sæti í stoðsendingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson í leiknum gegn Ítalíu í gær.
Jón Arnór Stefánsson í leiknum gegn Ítalíu í gær. vísir/valli
Jón Arnór Stefánsson er meðal efstu manna í stigum og stoðsendingum eftir tvær fyrstu umferðir riðlakeppninnar á Evrópumótinu í körfubolta.

Jón Arnór er í 3. til 6. sæti í stoðsendingum með 11 slíkar í leikjunum tveimur sem gerir 5,5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann er efstur í riðli Íslands ásamt Spánverjanum Sergio Llull.

Jón Arnór gaf fimm stoðsendingar í fyrsta leiknum á móti Þjóðverjum og var síðan sem sex stoðsendingar í leiknum á móti Ítalíu í gær.

Litháinn Mantas Kalnietis er efstur með 6,5 stoðsendingar að meðaltali og í öðru sæti er Finninn Petteri Koponen með 6,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Jón Arnór er síðan í 9. til 11. sæti í stigum en hann hefur skorað 34 stig í leikjunum tveimur sem gera 17.0 stig að meðaltali í leik. Jafnir Jóni eru NBA-leikmennirnir Jonas Valanciunas frá Litháen og Tony Parker frá Frakklandi.

Jón Arnór er fjórði stigahæsti leikmaður riðilsins í Berlín en á undanum honum eru Danilo Gallinari frá Ítalíu (18,5 stig í leik), Pau Gasol frá Spáni (18,5) og Nemanja Bjelica frá Serbíu (18,0).

Stigahæstu leikmennirnir eftir tvær fyrstu umferðirnar eru Króatinn Krunoslav Simon, Ísraelsmaðurinn Lior Eliyahu og Pólverjinn Adam Waczynski sem allir hafa skorað 19,0 stig að meðaltali í leik.

Jón Arnór skoraði 23 stig í fyrsta leiknum á móti Þjóðverjum en náði ekki alveg að fylgja því eftir gegn Ítölum þar sem hann skoraði 11 stig. Jón Arnór var í strangri gæslu og hitti aðeins úr 4 af 16 skotum sínum.

„Ég átti eiginlega ekki möguleika í dag (í gær). Ég reyndi mitt besta eins og alltaf en strákarnir eiga mikið skilið því mér fannst þeir draga vagninn allan leikinn. Við vorum bara góðir og áttum aftur möguleika á að vinna leikinn," sagði Jón Arnór eftir leikinn.


Tengdar fréttir

Logi: Vöðum bara óhræddir í Serbana

Logi Gunnarsson og félagar í íslenska körfuboltalandsliðinu hafa staðið sig vel í tveimur fyrstu leikjum sínum á Evrópumótinu í körfubolta.

Hundrað þristar hjá Jóni Arnóri

Jón Arnór Stefánsson varð í gær þriðji leikmaður landsliðsins til að setja hundrað þriggja stiga körfur í búningi íslenska landsliðsins.

Helgi Már: Við ætlum að vinna leiki hérna

Íslenska körfuboltalandsliðið hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á Evrópumótinu í körfubolta en í bæði skiptin voru þetta naum töp á móti stórþjóðunum Þýskalandi og Ítalíu.

Áttum aftur möguleika að vinna gegn Ítalíu

Íslenska körfuboltalandsliðið hefur unnið hug og hjörtu margra með frammistöðu sinni í fyrstu tveimur leikjum sínum á Evrópumótinu í Berlín þrátt fyrir tvö naum töp. Liðið stóð vel í hárinu á Þýskalandi og Ítalíu í fyrstu tveimur leikjum liðsins.

Fór í ísbað eftir leikinn

Jón Arnór Stefánsson er í risastóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu á Evrópumótinu og það er mikið álag á besta leikmanni liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×