Viðskipti innlent

Bara Norðlendingar í jarðvinnu á Bakka

Kristján Mår Unnarsson skrifar
Það eru nær eingöngu Norðlendingar sem annast jarðvegsvinnu vegna kísilversins á Bakka og verktakinn er sjálfur frá Ólafsfirði. Þessu komst Kristján Már Unnarsson að þegar hann tók púlsinn á framkvæmdunum.
 
Það var í byrjun maímánaðar sem fyrstu undirbúningsframkvæmdir hófust á iðnaðarlóðinni á Bakka. Aðalverktakinn í jarðvinnunni, Árni Helgason frá Ólafsfirði, mætti svo með sinn mannskap á svæðið í byrjun júlímánaðar, 15 karla af Norðurlandinu, eins og hann orðar það.
 
Spurður hvaðan starfsmennirnir séu svarar Árni að þeir séu frá Ólafsfirði, Akureyri og Húsavík. Árni vill þó ekki játa því að það sé meðvituð stefna að ráða eingöngu Norðlendinga til vinnu.
 
Hann segir heimamenn á Húsavík sýna verkinu mikinn áhuga, margir komi og aki framhjá og fylgist með. "Það er bara ánægjulegt að þetta sé loksins byrjað. Menn eru búnir að bíða eftir þessu í 10-15 ár," segir Árni.
 
Stefnt er að því að steypuvinna við undirstöður verksmiðjunnar hefjist eftir næstu áramót. Jarðvegsvinnan nú er aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal. Búast má við þvi að 400 manns vinni á svæðinu næsta og þar næsta sumar en verksmiðjan á svo að taka til starfa fyrir árslok 2017.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×