Innlent

Allt að 138% verðmunur á kyndingarkostnaði með rafmagni

Jóhann Óli EIðsson skrifar
vísir/vilhelm
Lægsta rafmagnsverð landsins er á Akureyri en svo var það einnig í fyrra. Næst lægst er verðið í Vestmannaeyjum. Dýrast er raforkuverðið í dreifbýli hjá notendum Orkubús Vestfjarða en í fyrra var það hæst hjá RARIK í dreifbýli. Þetta er meðal þess sem kemur út í úttekt Orkustofnunar á kostnaði við raforkunotkun og húshitun. Úttektin var gerð fyrir Byggðastofnun.

Hæsta verð í dreifbýli er allt að 47% hærra en lægsta verð í þéttbýli. Munurinn hefur minnkað eilítið frá árinu í fyrra en þá nam hann 51%. Í þéttbýli er hæsta verð 15% hærra en lægsta verð.

Þegar kemur að húshitunarkostnaði er munurinn öllu meiri. Í dreifbýli er kyndingarkostnaðurinn sá sami á orkuveitusvæði RARIK í dreifbýli og hjá Orkubúi Vestfjarða, 203.015 krónur. Í þéttbýli er kostnaðurinn hæstur á Hólmavík en hann nemur tæplega tvöhundruðþúsund krónum. Lægsti húshitunarkostnaðurinn er í Hveragerði, 85.255 krónur, en í fyrra var hann lægstur á Sauðárkróki. Alls munar því 138% á hæsta verði í dreifbýli og því lægsta.

Við útreikningana var miðað við eign sem er 140 fermetrar að flatarmáli og 350 rúmmetrar. Miðað var við gjaldskrá eins og hún var þann 1. apríl 2015.

Notendur eru bundnir því að versla við dreifiveitur á sínu svæðum sem hafa sérleyfi á dreifingu og flutningi á raforku. Notendum virðist almennt ekki vera ljóst að þeim er heimilt að kaupa raforku af hvaða sölufyrirtæki sem þeir kunna að kjósa en þau eru nokkur og með mismunandi verð. Munurinn er í flestum tilvikum sáralítill, innan við 1%, en getur verið allt að fimm prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×