Erlent

„Margir sem ég þekki hafa þurft að yfir­gefa heimili sín“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Angelee Baldursdóttir ræddi við fréttastofu frá Bangkok í dag.
Angelee Baldursdóttir ræddi við fréttastofu frá Bangkok í dag.

Íslendingur í Bangkok segir fjölda vina sinna hafa þurft að yfirgefa heimili sín eftir jarðskjálfta sem reið yfir Mjanmar fyrir helgi og fannst vel í nágrannaríkjum. Þungt sé yfir borginni, og íbúar óttaslegnir. Eftirskjálftar hafa gert björgunarstarf í Mjanmar erfitt.

Tala látinna í Mjanmar rís enn, hafa 1.700 látist samkvæmt herforingjastjórn landsins. Þrjú hundruð er enn saknað og tala særðra nær vel yfir þrjú þúsund. Björgunarstarf gengur erfiðlega, bæði vegna slæms aðbúnaðar en einnig vegna stórra eftirskjálfta. Einn slíkur, 5,1 að stærð, reið yfir landið í dag.

Fólk er enn í áfalli

Í Bangkok á Taílandi hafa 18 látist, en hátt í 80 manns er enn saknað. Angelee Baldursdóttir býr í Bangkok, höfuðborg Taílands, og starfar í skóla þar. Hún segir áhrif skjálftans hafa verið mikil, og að ekki sé talið öruggt fyrir íbúa háhýsa að dvelja þar, skemmdir séu miklar og í mörgum tilfellum virki lyftur ekki.

Borgarbúar séu enn margir í áfalli eftir föstudaginn.

„Það eru margir sem ég þekki sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Sérstaklega ef þau búa í háhýsi,“ segir Angelee.

Unnið dag og nótt

Tugir verkamanna eru enn fastir í rústum háhýsis sem verið var að byggja þegar skjáltinn varð.

„Björgunarmenn og björgunarsveitir eru að vinna í því, dag og nótt að reyna að bjarga þeim.“

Angelee segir andrúmsloftið í borginni þungt vegna atburðanna. Fólk óttist enn eftirskjálfta, sem hafi þó ekki enn látið á sér kræla í borginni. Fólk sé minna á ferli, sem sjáist glögglega á umferðinni um götur borgarinnar í dag, samanborið við dagana fyrir skjálftann.

Þrátt fyrir allt haldi lífið áfram. Vinnustaðir, sem margir hverjir eru í háhýsum, séu enn opnir. Það sama eigi við um veitingastaði og bari. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×