Íslendingaliðið Odense Boldklub tapaði illa á útivelli á móti AaB í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Álaborgar-liðið vann leikinn 5-1 eftir að hafa komist í 2-0 eftir sextán mínútna leik og skorað síðan tvö af mörkum sínum á lokamínútum leiksins.
Ari Freyr Skúlason og Hallgrímur Jónasson voru báðir í byrjunarliði OB-liðsins, Ari Freyr á miðjunni en Hallgrímur í miðverðinum.
OB-liðið hefur aðeins fengið eitt stig út úr síðustu fjórum deildarleikjum sínum eftir að hafa unnið tvo fyrstu leikina.
OB-er að skora í flestum leikjum sínum en vörnin er hripleik enda ekkert lið í dönsku deildinni búið að fá á sig fleiri mörk í fyrstu sex umferðunum.
OB-liðið er líka á hraðri leið niður töfluna og situr í 9. sætinu eftir tapið í kvöld.
AaB-liðið hoppaði hinsvegar alla leið upp í annað sætið en liðið er þó enn fjórum stigum á eftir toppliði Midtjylland.
Ekkert gengur hjá Ara og Hallgrími þessa vikurnar
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
