Viðskipti erlent

Apple hélt velli á meðan markaðir hrundu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. Vísir/Getty
Hlutabréf í tæknifyrirtækinu Apple unnu upp mikið fall við opnum markaða í dag á meðan mikið verðfall var á hlutabréfamörkuðum víðsvegar um heiminn í kjölfar hruns á mörkuðum í Kína. Hlutabréf Apple lækkuðu mikið við opnun markaða en tölvupóstur frá Tim Cook, forstjóra Apple, snéri dæminu við þótt að endingu hefðu bréfin lækkað um 2,5% í lok dags.

Í kjölfar þess sem fjölmiðlar ytra kalla „The Great Fall of China“ varð mikið verðfall á hlutabréfamörkuðum víða um heim, m.a. hér á Íslandi. Fyrst um sinn voru hlutabréf í Apple engin undantekning frá öðrum hlutabréfum. Örfáum mínútum eftir opnun markaða í Bandaríkjunum höfðu hlutabréf í Apple lækkað um 13%, í takt við önnur hlutabréf en helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum á borð við Nasdaq og Dow Jones lækkuðu töluvert við opnun markaða.

Sjá einnig: Hrun á hlutabréfamörkuðum vegna Kína.

Það var hinsvegar tölvupóstur frá Tim Cook, forstjóra Apple, til viðskiptablaðamannsins Jim Cramer hjá CNBC sem leiddi til þess að fjárfestar öðluðust trú á Apple umfram önnur bréf. Í tölvupóstinum sagði Cook að sala á iPhone-símum fyrirtækisins hefði aukist í Kína undanfarnar vikur, þrátt fyrir áhyggjur yfir því að efnahagur Kína væri að hægja á sér og þann óstöðugleika sem því hefur fylgt.

Í kjölfar póstsins ruku hlutabréf Apple upp í verði og þegar mest lét hafði félagið hækkað um 3%. Félagið hífði einnig upp fall helstu hlutabréfavísitalna á mörkuðum í Bandaríkjunum sem lækkuðu einnig mikið við opnun markaða. Verð hlutabréfa í Apple féll þó örlítið til baka þegar leið á daginn og var verð bréfanna við lokun markaðanna um 2,5% lægra en það var fyrir opnun markaða í dag.

Uppfært kl. 21.30 

Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að hlutabréf Apple hefðu hækkað í verði á meðan önnur lækkuðu. Það var ekki rétt, þau lækkuðu einnig áður en dagurinn var úti. 



Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×