Viðskipti innlent

Hefðu líklega fengið lægra verð fyrir makríl

Samúel Karl Ólason skrifar
Miðað við óbreytt verð í dölum hefðu Rússar þurft að greiða helmingi fleiri rúblur fyrir makrílinn.
Miðað við óbreytt verð í dölum hefðu Rússar þurft að greiða helmingi fleiri rúblur fyrir makrílinn. Vísir/Óskar
Líklegt er að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hefðu fengið lægra verð fyrir makrílafurðir nú í sumar miðað við í fyrra. Það er að segja, væru Rússar ekki búnir að setja innflutningsbann á íslenskar sjávarafurðir. Kaupmáttur rússnesku rúblunnar hefur fallið um þriðjung gagnvart krónunni og 41 prósent gagnvart Bandaríkjadal það sem af er þriðja ársfjórðungi. Að mestu leyti má rekja það til lækkunar olíuverðs.

Um 60 prósent af útflutningstekjum Rússlands koma frá útflutningi á hráolíu, bensíni og gasi. Miðað við óbreytt verð í dölum hefðu Rússar þurft að greiða helmingi fleiri rúblur fyrir makrílinn.

Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

„Miðað við sterka stöðu kaupenda á makrílmarkaði hefði veiking rúblunnar því að öllum líkindum haft í för með sér umtalsverða lækkun á afurðaverði hvort tveggja í krónum eða Bandaríkjadölum talið.“

Útflutningsverðmæti sjávarafurða var 244 milljarðar króna í fyrra og þar af fóru tæplega tíu prósent til Rússlands. Sé einungis litið til hlutdeildar í magni, keyptu Rússar um 18 prósent útflutnings íslenskra sjávarafurða.

„Rússneski markaðurinn hefur orðið æ mikilvægari á síðustu árum en bæði útflutt magn og útflutt verðmæti hafa farið vaxandi sem hlutfall af heildarútflutningi íslenskra sjávarafurða.“

Sem dæmi um mikilvægi markaðarins í Rússlandi er bent á að 38 prósent útflutningsverðmætis makríls í fyrra fór til Rússlands. Þar á eftir var Holland með 21 prósent. Þó er líklegt að sú tala sé ýkt þar sem hluta makrílsins var umskipað þar. Þriðja landið er Nígería, en þar hefur heimsmarkaðsverð á olíu einnig komið niður á efnahagi og hefur innflutningshöftum verið komið á þess vegna.

„Rússar eru ekki bara mikilvægir viðskiptavinir þegar kemur að makríl heldur hafa kaup þeirra á karfa, gulllaxi, síld og loðnu aukist töluvert á síðustu árum og eru Rússar með stærstu kaupendum þessara tegunda. Á síðasta ári keyptu Rússar 20 prósent af útflutningi á karfa, 44 prósent af gulllaxi, 26 prósent af loðnu og 42 prósent af síld.“


Tengdar fréttir

Bannið er högg fyrir 300 í smábátaútgerð

Aðeins 20 smábátar eru við makrílveiðar en margir bíða upp á von og óvon vegna viðskiptabanns Rússa á íslenskar vörur. Tífalt minna hefur fiskast og aflaverðmætið 300 milljónum minna en á sama tíma í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×