Erlent

Fjórir menn heiðraðir fyrir hetjudáð

Samúel Karl Ólason skrifar
Francois Hollande ásamt þeim Spencer Stone, Alek Skarlatos, Anthony Sadler og Chris Norman.
Francois Hollande ásamt þeim Spencer Stone, Alek Skarlatos, Anthony Sadler og Chris Norman. Vísir/AFP
Þrír Bandaríkjamenn og einn Breti hafa hlotið æðsta heiður Frakklands. Það fengu þeir fyrir að koma í veg fyrir fjöldamorð um borð í lest á föstudaginn. Francois Hollande, forseti Frakklands, veitti í dag þeim Spencer Stone, Alek Skarlatos, Anthony Sadler og Chris Norman heiðursorðunni Legion d´honneur í forsetahöllinni í Frakklandi.

Tveir aðrir farþegar, munu einnig fá orðuna. Um er að ræða einn mann með tvöfalt ríkisfang, franskt og bandarískt, og heitir hann Mark Moogalian. Hinn er franskur og var hann fyrstur til að mæta byssumanninum og reyna að stöðva hann. Sá vill ekki koma fram opinberlega.

„Við erum hér til að heiðra fjóra menn, sem sýndu mikið hugrekki, og björguðu mannslífum,“ sagði Hollande. „Í nafni Frakklands, vil ég þakka ykkur fyrir. Heimurinn allur dáist að hugrekki ykkar.“

Hollande sagði einnig að hryðjuverkamaður hefði ákveðið að gera árás og að hann hafi haft nægilega mikið af vopnum og skotfærum til að fremja blóðbað. Það hefði hann einmitt gert ef mennirnir hefðu ekki lagt líf sín í hættu við að stöðva hann.

Árásarmaðurinn er frá Marokkó og heitir Ayoub El-Khazzani og er 26 ára gamall. Hann er nú í haldi lögreglu, sem lítur á málið sem hryðjuverk. Lögmaður Khazzani segir hins vegar að hann hafi einungis ætlað að ræna lestina með vopnum sem hann fann í garði nærri lestarstöðinni. Hann skilji ekki að litið sé á atvikið sem tilraun til hryðjuverks.

Fyrsta Legion d´honneur orðan var veitt af Napóleon Bonaparte árið 1802.


Tengdar fréttir

Hermenn í fríi yfirbuguðu árásarmanninn

Mildi þykir að aðeins þrír særðust í árás vopnaðs manns á franska hraðlest í gær. Bandarískir hermenn í lestinni forðuðu því að ekki fór verr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×