Menning

Tvö draumahlutverk í einu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég er búin að vera í hlátuskasti frá fyrstu æfingu,“ segir Sigríður Ósk um óperuna Rakarinn í Sevilla.
"Ég er búin að vera í hlátuskasti frá fyrstu æfingu,“ segir Sigríður Ósk um óperuna Rakarinn í Sevilla. Vísir/GVA
„Efni óperunnar er ótrúlega skemmtilegt, bæði músíkin og sagan, en þó með alvarlegum undirtóni. Ég er búin að vera í hláturskasti frá fyrstu æfingu,“ segir Sigríður Ósk Kristjánsdóttir söngkona sem gengur í hlutverk Rosinu í Rakaranum á næstu tveimur sýningum. 

„Þetta er fyrsta burðarhlutverk mitt með Íslensku óperunni og jafnframt það stærsta sem ég hef tekist á við,“  segir hún. 

„Rosina er litríkur karakter. Hún er fjörug, hnyttin og  fljót að hugsa og hlýtur að vera afar heillandi því Lindoro greifi kemur um langan veg til að reyna að krækja í hana, eftir að hafa séð henni einu sinni bregða fyrir. Hún stelst upp á þak á nóttunni því harðstjórinn sem hún býr hjá vill aldrei hleypa henni út, hann ætlar sér að giftast henni því hann veit að hún fékk fúlgu í arf eftir foreldra sína. En Lindoro greifi syngur falleg lög fyrir utan gluggann hennar, það finnst henni æðislegt og er alveg sama þó að hann sé fátækur.“

Rosina (Sigríður Ósk) og rakarinn (Oddur A. Jónsson) að plotta hvernig best sé að næla í Lindoro.Mynd/Jóhanna Ólafsdóttir
Þótt sagan gerist í Sevilla á Spáni er sungið á ítölsku – aðalmáli óperubókmenntanna. Æfingar hófust í lok ágúst.

„Við æfðum alla daga, allan daginn. Áður var ég auð­vitað búin að liggja yfir efninu því helst þarf maður að kunna allt þegar maður mætir,“ segir Sigríður Ósk sem söng í Töfraflautunni í Hörpu. Auk þess hefur hún sungið yfir tuttugu óperuhlutverk á Englandi, meðal annars hjá English National Opera og Glyndebourne Opera.

Fleiru þarf Sigríður Ósk að sinna en söngnum því hún á eins og hálfs árs gamla dóttur, Helenu Ingu, og segir hana orðna pínulitla Rosinu „Ég hef auðvitað verið að æfa heima og allt í einu er hún farin að gera alveg eins og ég. Það er mjög skemmtilegt. Það er frábært að vera í tveimur draumahlutverkum í einu, móðurhlutverkinu og hlutverki Rosinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.