Stjarnan, sem stóð uppi sem Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögunni í fyrra, átti afar dapurt tímabil í ár þó því hafi verið reddað fyrir horn með góðum endaspretti.
Stjörnumenn voru aldrei í titilbaráttu og nær fallinu lengi vel áður en þeir tóku á sprett í haust og enduðu í fjórða sæti deildarinnar.
Íslandsmeistararnir voru gagnrýndir í sumar fyrir að styrkja liðið ekki nógu mikið og Rúnar Páll tók undir þá gagnrýni í viðtali í Akraborginni.

„Við vorum með mjög fínt lið, ég ætla ekki að neita því. Við reiknuðum kannski með að fá meira úr þessum lykilmönnum sem við fengum til okkar,“ segir Rúnar Páll.
Stjarnan fékk til sín Brynjar Gauta Guðjónsson til að leysa af Martin Rauschenberg, Jeppe Hansen til að fylla í skarð Rolfs Tofts og þá kom Halldór Orri Björnsson aftur heim eftir eins árs dvöl í atvinnumennsku.
„Præst var að koma úr erfiðum meiðslum og Jóhann Laxdal líka. Halldór Orri átti ekki sitt besta tímabil og það eru kannski margar ástæður fyrir því,“ segir Rúnar Páll, en Brynjar Gauti fékk líklega í heildina mestu gagnrýnina.
„Brynjar Gauti fannst mér standa sig vel heilt yfir og var alltaf vaxandi. Ég hef trú á því að hann verði miklu betri á næsta tímabili. Hann og Daníel Laxdal spiluðu svo sem ágætlega saman í sumar þrátt fyrir að fá á sig klaufaleg mörk eins og öll önnur lið gera.“

Rúnar Páll segir að Stjörnumenn hefðu átt að gera eins og FH er duglegt að gera og fá sér tvo til þrjá lykilmenn sem skipta sköpum fyrir hópinn.
„Leikmannahópurinn sem slíkur var ágætur, en síðan má alltaf deila um það hvort við hefðum átt að kaupa okkur tvo til þrjá lykilmenn eins og FH-ingarnir hafa veri flinkir að gera þegar þeir vinna,“ segir Rúnar.
„Þetta er eitthvað sem við lærum af; bæði þjálfarar og stjórn félagsins. Það hefði verið klókt að kaupa sterkari leikmenn. Eftir á að hyggja hefðum við átt að styrkja þetta meira, en við fylltum upp í skörðin sem vantaði.“
„Hefðum við átt að bæta meira við? Já. Það hefði ekki verið vitlaust,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson.
Allt viðtalið má heyra í spilaranum hér að neðan.