Erlent

Sipilä útilokar engan flokk við myndun næstu ríkisstjórnar

Atli Ísleifsson skrifar
Juha Sipilä, leiðtogi Miðflokksins.
Juha Sipilä, leiðtogi Miðflokksins. Vísir/AFP
Juha Sipilä, leiðtogi finnska Miðflokksins, segist vilja að búið verði að mynda nýja ríkisstjórn fyrir 1. maí. Sipilä greindi frá þessu á fundi með fréttamönnum fyrr í dag.

Miðflokkurinn vann öruggan sigur í kosningunum en hann fékk um 22 prósent atkvæða. Mesta spennan var þó fólgin í þriggja flokka baráttu Þjóðarbandalagsins, Jafnaðarmannaflokksins og Sannra Finna um annað sætið. Þjóðarbandalagið endaði í öðru sæti með um 18 prósent atkvæða en Sannir Finnar þóttu ná góðum árangri í kosningunum og náðu að komast fram úr jafnaðarmönnum á lokasprettinum.

Í frétt YLE kemur fram að Sipilä segist ekki vilja gefa upp hvað margir flokkar muni mynda ríkisstjórn með Miðflokknum, en hann ítrekaði að traust og málefni réðu mestu um myndun ríkisstjórnar, ekki einungis úrslit kosninganna.

Sipilä segir að eftir fyrstu samtöl sín við aðra flokksleiðtoga sé ekkert sem útiloki einhvern flokk frá næstu ríkisstjórn að svo stöddu. Hann mun eiga fundi með hverjum og einum flokksleiðtoga á næstu dögum.

Aðspurður um þjóðernisflokkinn Sannir Finnar segir Sipilä að hann treysti Timo Soini, leiðtoga flokksins, persónulega og að til greina komi að þeir verði í næsti ríkisstjórn landsins.

Sipilä verður formlega veitt umboð til stjórnarmyndunar um miðja næstu viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×