Erlent

Ráðherrar ESB-ríkja boða hertari aðgerðir

Atli Ísleifsson skrifar
Talið er að allt að 950 manns hafi drukknað þegar bátur sökk undan strönd Líbíu um helgina.
Talið er að allt að 950 manns hafi drukknað þegar bátur sökk undan strönd Líbíu um helgina. Vísir/AFP
Utanríkisráðherrar aðildarríkja ESB hafa heitið því að efla aðgerðir til að reyna að koma í veg fyrir dauða flóttamanna í Miðjarðarhafi.

Í frétt Reuters kemur fram að til standi að efla leitar- og björgunaraðgerðir og aðgerðir til að ná þeim sem skipuleggja slíkar ferðir flóttamanna á illa búnum og ofhlöðnum bátum.

Fleiri hundruð flóttamanna hafa drukknað í Miðjarðarhafi síðustu vikurnar og er talið að allt að 950 manns hafi drukknað þegar bátur sökk undan strönd Líbíu um helgina.

Stjórnvöld í fjölda Evrópuríkja hafa dregið það að leggja aukið fé til björgunaraðgerða í Miðjarðarhafi af ótta við að óbeint hvetja þannig fleira fólk til að leggja slíkt ferðalag á sig í von um betra líf í Evrópu. Nú sæta þau hins vegar harðri gagnrýni vegna tíðra frétta af dauðsföllum síðustu mánaða.

Paolo Gentiloni, utanríkisráðherra Ítalíu, sagði orðspor Evrópusambandsins vera í húfi, þegar hann mætti til ráðherrafundarins í Lúxemborg í morgun. Ítalir hafa lengi beðið önnur aðildarríki sambandsins um aukna aðstoð vegna flóttamannastraumsins.

Ítölsk yfirvöld björguðu um átta þúsund flóttamönnum af illa búnum bátum í Miðjarðarhafi í síðustu viku.

Hin ítalska Federica Mogherini, utanríkismálastjóri sambandsins, segir nauðsynlegt að byggja upp sameiginlega ábyrgðartilfinningu innan Evrópusambandsins vegna vandans. Segir hún að til greina komi að boða til neyðarfundar hjá leiðtogum aðildarríkja ESB í næstu viku til að ræða næstu skref.


Tengdar fréttir

Kefst aðgerða frá ESB

Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, krefst þess að Evrópusambandið leggi meira af mörkum á Miðjarðarhafi þar sem flóttamannavandinn frá Líbýu er nú meiri en nokkru sinni fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×