Veðurstofa Íslands hefur gefið út viðvörun vegna vatnavár. Rennsli Skaftár við Sveinstind hefur verið að aukast síðasta sólarhring og rafleiðni hefur einnig aukist. Þessar athuganir þýða að Skaftárhlaup er mjög líklega hafið.
Rennslið við Sveinstind er nú um 150 m3/s. Hlaupið kemur líklegast úr vestari Skaftárkatlinum, sem síðast hljóp úr í janúar 2014. Það fæst ekki staðfest fyrr en með sjónrænni athugun úr flugi yfir katlana.
Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum. Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi.
Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir. Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn og því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.