Innlent

Fjölbreytt dagskrá á þjóðhátíðardaginn

Bjarki Ármannsson og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Frá hátíðarhöldunum á Akureyri fyrir ári.
Frá hátíðarhöldunum á Akureyri fyrir ári. Vísir/Auðunn
Skipulögð þjóðhátíðardagskrá í Reykjavík hefst klukkan korter yfir tíu með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Í kjölfarið tekur við dagskrá þar sem flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Veðurspá er sæmileg í borginni, átta gráða hita spáð auk lítillar rigningar. Léttur vindur verður af suð- austri. Hefðbundnir dagskrárliðir eru til staðar, til að mynda ávarp forsætisráðherra og ávarp Fjallkonunnar. Skrúðgöngur verða farnar frá Austurvelli, Hlemmi og Hagatorgi. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, leggur blómsveig frá Íslendingum að minnisvarða Jóns Sigurðssonar og Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, leggur blómsveig frá Reykvíkingum að leiði hans og konu hans.

Barna- og fjölskylduskemmtanir verða annars vegar á Arnarhóli og hins vegar í Hljómskálagarðinum klukkan hálf tvö. Þá verða stórtónleikar á Arnarhóli í dag þar sem fram koma til að mynda Þórunn Antonía, AmabAdamA, Kolrassa krókríðandi og Reykjavíkurdætur. Skipulagðri dagskrá lýkur klukkan tíu í kvöld.

17. júní er fagnað í flestum sveitarfélögum landsins. Dagskráin hefst klukkan 13 á Akureyri og Ísafirði.

Á Akureyri leggur skrúðganga af stað úr Lystigarðinum klukkan 13.45 og verður gengið inn á Ráðhústorg þar sem fjölskyldudagskrá undir stjórn Skátafélagsins Klakks hefst klukkan 14. Hægt verður að taka þátt í ratleik á miðbæjarsvæðinu sem skátafélagið Klakkur skipuleggur sem og í skátatívoli í Skátagilinu.

Þá munu 200.000 naglbítar, Pétur Örn, Katrín Mist og fleiri koma fram á tónleikum milli 20 og 23.30.

Skrúðganga á Ísafirði hefst 13.45, með skátum og lögreglu í broddi fylkingar, en krakkar geta fengið andlitsmálningu í Safnahúsinu frá klukkan 12. Hátíðardagskrá hefst á Eyrartúni klukkan 14 og barnadagskráin klukkan 14.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×