Innlent

Hollenska móðirin neitaði sök

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tálbeituaðgerð lögreglu fór fram við Hótel Frón, Laugavegi.
Tálbeituaðgerð lögreglu fór fram við Hótel Frón, Laugavegi. Vísir/Stefán
Hollensk kona á fimmtugsaldri, sem ákærð er fyrir innflutning á um 20 kílóum á fíkniefnum til landsins á föstudaginn langa, neitar sök. Hún ætlar að skila skýrari afstöðu í greinargerð.

Ríkissaksóknari hefur höfðað mál á hendur konunni og íslenskum manni á þrítugsaldri sem er sakaður um að hafa veitt tösku viðtöku sem hann taldi innihalda efnin. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Hollenska konan kom til landsins ásamt dóttur sinni sem er á táningsaldri. Sú hefur verið í umsjá barnaverndaryfirvalda hér á landi. Í farbannsúrskurði yfir stúlkunni kom fram að hún hefði talið sig vera á leið í frí til Íslands. Móðirin hefði alfarið séð um að pakka í töskurnar.

Sjá einnig:Hollenska móðirin notuð í tálbeituaðgerð

Mæðgurnar voru handteknar við komuna til landsins. Fannst í tveimur ferðatöskum rúm níu kíló af amfetamíni, 194 grömm af kókaíni og um 10 kíló af MDMA. Í framhaldinu var móðirin notuð sem tálbeita og send á fund Íslendingsins. Hafði efnunum verið skipt út fyrir gerviefni.

Íslendingurinn, sem handtekinn var á Hótel Frón í miðbæ Reykjavíkur, fékk frest til að taka afstöðu til ákærunnar. Hann er talinn hafa ætlað að koma efnunum til ótilgreindra aðila hér á landi en í framhaldinu hafi átt að koma efnunum í söludreifingu.

Fyrirtaka í málinu verður í Héraðsdómi Reykjaness í lok ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×