Innlent

Vilja skipta út þremur 15 hæða húsum fyrir 18 hæða turn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Kex-hostel verður óhult á Skúlagötu 28 samkvæmt skipulagstillögu
Kex-hostel verður óhult á Skúlagötu 28 samkvæmt skipulagstillögu Fréttablaðið/GVA
„Á forsendum úrelts skipulags telur borgin sig skuldbundna til að koma fyrir byggingarmagni sem engan veginn samræmist markmiðum aðalskipulagsins,“ bókaði Magnea Guðmundsdóttir úr Bjartri framtíð sem sat hjá þegar aðrir fulltrúar í skipulagsráði borgarinnar samþykktu að láta auglýsa tillögu eigenda um breytt deiliskipulag á Barónsreit.

„Gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir stórfelldu niðurrifi gamalla timburhúsa við Laugaveg og Hverfisgötu og á baklóðum við Vitastíg. Nýja tillagan kveður á um að flest þessara húsa haldi sér auk þess sem lögð er sérstök áhersla á að styrkja timburhúsaþyrpingu við Vitastíg og tengja hana, með nýjum stíg, við Laugaveg, Hverfisgötu og Bjarnaborg,“ bókuðu fulltrúar allra flokka nema Bjartrar framtíðar.

Þá er bent á að gildandi deiliskipulag geri ráð fyrir þremur fimmtán hæða turnum við Skúlagötu og háum tengibyggingum milli þeirra. Það heimilar einnig niðurrif Skúlagötu 28 þar sem Kex hostel er. Samkvæmt nýju tillögunni verður einn átján hæða turn við Skúlagötu og Skúlagata 28 heldur sér þannig að byggja megi tvær hæðir ofan á húsið.

Magnea Guðmundsdóttir
„Við teljum að skipulagstillagan sé mun betri en gildandi deiliskipulag. Engu að síður teljum við að byggingarmagn við Skúlagötu sé of mikið. Við leggjumst gegn því að turninn verði átján hæðir og teljum að hann eigi að vera sextán hæðir að hámarki og ekki meira en sextíu metrar á hæð frá sjó,“ segir í bókun fulltrúans. 

Enn fremur er sagt „nauðsynlegt að tryggt verði að húsin milli Hverfisgötu og Laugavegs verði íbúðarhús og einnig húsin sem standa norðanmegin við Hverfisgötu og stölluðu húsin neðst við Vitastíg“.

Magnea Guðmundsdóttir, sem er arkitekt, bókaði að ákjósanlegra væri að draga meiri lærdóm af eldra skipulagi við Skúlagötu þar sem háir turnar loki inni eldri byggð frá sjávarsíðunni og taki ekki tillit til samspils byggðar og landslags þar fyrir.

„Gríðarlegt byggingarmagn leiðir af sér djúpa kroppa þar sem erfitt er að koma dagsljósi að bæði í innri og ytri rýmum og dregur verulega úr gæðum þeirra. Hægt hefði verið að draga úr þessum áhrifum með því að dreifa betur byggingarmagni beggja vegna Hverfisgötu,“ segir í bókun Magneu Guðmundsdóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×