Golf

Valspar Championship hófst í gær

Henrik Stenson á fyrsta hring í gær.
Henrik Stenson á fyrsta hring í gær. Getty
Englendingurinn Brian Davis er í efsta sæti á Valspar Championship sem hófst í gær en hann lék Copperhead völlinn í Flórída á 65 höggum eða sex undir pari.

Á eftir honum koma Bandaríkjamennirnir Sean Ohair og Ricky Barnes á fimm höggum undir pari en margir kylfingar koma á eftir þeim á þremur eða fjórum höggum undir.

Margir sterkir kylfingar eru með um helgina en Svíinn Henrik Stenson er stærsta nafnið sem er ofarlega á skortöflunni en hann kom inn á 67 höggum eða fjórum undir pari.

Ian Poulter byrjaði líka vel og er á þremur höggum undir pari eftir fyrsta hring en ungstirnið Jordan Spieth, sem margra augu verða eflaust á um helgina, er á einu höggi undir pari.

Þá vekur athygli að Írinn Padraig Harrington, sem sigraði á Honda Classic með glæsibrag fyrir aðeins hálfum mánuði síðan, lék fyrsta hring á fimm yfir pari og er meðal neðstu manna.

Það var þó skömminni skárra heldur en frammistaða hins litríka John Daly á fyrsta hring en hann situr einn í síðasta sæti eftir hring upp á 81 högg eða tíu yfir pari.

Copperhead völlurinn á Innisbrook golfsvæðinu er af mörgum talinn einn sá skemmtilegasti á PGA-mótaröðinni en Golfstöðin mun sýna frá Valspar meistaramótinu alla helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×