Reynsla ferðamanna af Reykjavík var afar góð í ár en 97 prósent kváðu hana frábæra eða góða. Enginn hafði slæma reynslu af borginni.
Þetta kemur fram í könnun RRF sem gerð var fyrir Höfuðborgarstofu. Þetta er besta niðurstaðan sem mælst hefur frá því RFF hóf kannanir fyrir Höfuðborgarstofu árið 2004.
Einnig kemur fram að konur voru nokkru ánægðari með Reykjavík en karlar, fólk yfir 55 ára enn ánægðara en þeir yngri og ferðamenn frá Norðurlöndunum, Bretlandi og Norður-Ameríku voru ánægðari en fólk frá öðrum svæðum.
Spurt var um afþreyingu fólks í borginni. 78% fóru á veitingahús og helmingur ferðamanna versluðu og fóru í dagsferðir frá Reykjavík. Þriðjungur stundaði næturlífið, söfn og sund.
Þátttakendur voru beðnir um að meta gæði afþreyingar og fengu dagsferðir og sundlaugarnar hæstu einkunn. Verslun fékk sístu einkunnina af þeim átta liðum sem teknir voru fram, eða 6,9 af 10 mögulegum. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust nær allir, eða 98,3%, myndu mæla með Reykjavík við aðra.
Einar Bárðarson, fráfarandi forstöðumaður Höfuðborgarstofu, segir að niðurstöður könnunarinnar hafi verið ótrúlega jákvæðar á síðasta ári og því hafi hann ekki búist við að þær yrðu enn betri í ár. Hann segir marga eiga þátt í þessari góðu upplifun ferðamanna.
„Ferðaþjónustan í hvaða formi sem hún er, verslunin og borgarbúar eiga sinn hlut í þessu. Þetta er frábær viðurkenning fyrir alla þá sem leggja sig fram og bjóða erlendum gestum í borginni okkar góðan dag,“ segir Einar.
Svíþjóð
Ísland