Handbolti

Aron: Hefði viljað sjá betri frammistöðu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Kristjánsson var ekki parhrifinn af öllu í leik Íslands í kvöld.
Aron Kristjánsson var ekki parhrifinn af öllu í leik Íslands í kvöld. vísir/ernir
„Það voru góðir kaflar í leiknum en líka mjög slakir kaflar, sérstaklega fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handbolta, við Fréttablaðið eftir 30-24 tap gegn Svíum í vináttuleik í Kristianstad í kvöld.

„Fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik voru sérstaklega slæmar þar sem við gerðum marga tæknifeila og vorum seinir til baka í vörnina. Við náðum aðeins að stoppa þetta af undir lokin og spila þokkalega, en þetta var kaflaskipt,“ segir Aron.

Ísland var án Aron Pálmarssonar, Guðjóns Vals Sigurðssonar, Arnór Atlasonar og Alexanders Peterssonar í leiknum, en Aron notaði leikinn til að gefa þeim sem stóðu á barmi þess að komast til Katar lokatækifæri til þessa.

„Við ákváðum að hvíla vissa menn í þessum leik, en nú fáum við tvo leiki þar sem við getum stillt upp okkar sterkasta,“ segir Aron, en HM-hópurinn verður valinn seinna í kvöld og verður spilað á honum í hinum leikjunum á þessu æfingamóti gegn Dönum og Slóvenum.

„Þetta eru í heildina fimm leikir og þarna fengu nokkrir leikmenn fína reynslu - leikmenn sem hafa verið í minni hlutverkum. Það er gott upp á framhaldið. Núna fáum við tvo leiki með okkar besta lið sem er meira en nóg, en við verðum líka að passa að keyra ekki liðið út. Meiningin mað þessum leik var að gefa öðrum spilurum frekari reynslu.“

Aron viðurkennir fúslega að þeir sem ekki eru fastamenn í liðinu hefðu mátt standa sig betur, en á löngum köflum var ekki sjón að sjá strákana í leiknum, hvort sem heldur í vörn eða sókn.

„Maður hefði viljað sjá betri frammistöðu hjá nokkrum, en nú verður maður bara að meta stöðuna úr því sem komið er. Þetta miðast ekki bara við leikinn í kvöld heldur allan undirbúninginn og hvað okkur skortir taktískt,“ segir Aron, en Ísland mætir Svíþjóð svo aftur í riðlakeppni HM eftir viku.

„Þessu leikur hafði auðvitað enga þýðingu nema bara að geta lært nokkra hluti sem þeir eru að gera og reyna að undirbúa okkur fyrir Katar. Þegar við mætum þangað verðum við klárir með okkar besta lið og mætum þeim að fullu,“ segir Aron Kristjánsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×