Viðskipti innlent

Heildarfjármögnun kísilmálmverksmiðju á Bakka tryggð

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Bakka við Húsavík.
Frá Bakka við Húsavík. Vísir/Pjetur
Bakkastakkur slhf. hefur undirritað samkomulag við PCC SE um þátttöku í fjármögnun á kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Eigendur Bakkastaks eru á annan tug lífeyrissjóða ásamt Íslandsbanka.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá PCC BakkiSilicon hf.

Heildarfjárfesting vegna verksmiðjunnar er um 300 miljónir dollara sem samsvarar á fjórða tug milljarða íslenskra króna. Verkefnið er nú fullfjármagnað og að stórum hluta með erlendu lánsfé frá íslenskum banka.

„Rúmur fjórðungur fjárfestingarinnar kemur frá Bakkastakki í formi lánsfjármögnunar og forgangshlutafjár í PCC BakkiSilicon hf., félaginu sem stofnað hefur verið utan um verkefnið,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir ennfremur að fjármögnunin sé háð vissum skilyrðum og til dæmis séu gerðir fyrirvarar við atriði er lúta að rannsókn Eftirlitsstofnunar EFTA á samningum vegna verksmiðjunnar við Landsvirkjun og Landsnet.

„Stjórn Bakkastakks og PCC SE lýsa yfir ánægju með áfangann en þetta er fyrsta verkefnafjármögnun af þessari stærðargráðu með þátttöku erlends banka á Íslandi um langt skeið. Framkvæmdin styður atvinnuuppbyggingu á Íslandi en búast má við að hún skapi um 120 störf. Þá hentar fjárfestingin lífeyrissjóðunum vel þar sem endurgreiðsla hennar er til langs tíma í erlendum gjaldmiðlum og dreifir þannig áhættu í eignasöfnum þeirra.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×