Innlent

Allar líkur á verkfalli lækna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Á miðnætti leggja læknar á aðgerða- og flæðisviði Landspítalans niður störf ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma.
Á miðnætti leggja læknar á aðgerða- og flæðisviði Landspítalans niður störf ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma. Vísir/Ernir
Allar líkur eru á að verkfall lækna skelli á á miðnætti að mati formanns Læknafélags Íslands. Samningafundur lækna og ríkisins í gær reyndist árangurslaus.

Á miðnætti leggja læknar á aðgerða- og flæðisviði Landspítalans niður störf ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma. Þeim sviðum tilheyra meðal annars bráðamóttaka, gjörgæsla og skurðdeildir. Þá leggja læknar á ýmsum stofnunum einnig niður störf til að mynda hjá Landlæknisembættinu og Greiningarstöð ríkisins.

Samninganefndir Læknafélags Íslands og ríkisins hittast á fundi í Karphúsinu klukkan tvö til að reyna enn á ný að ná samkomulagi. Þorbjörn Jónsson er formaður Læknafélags Íslands.

„Það eru náttúrulega ekki margar klukkustundir í það að verkfallið hefjist það er klukkan tólf á miðnætti þannig að tíminn er stuttur. Þannig að ég tel nú allar líkur á því að verkfallið hefjist fyrst að tíminn er svona stuttur,“ segir Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands.

Magnús Pétursson ríkissáttasemjari segir að reynt verði til þrautar að leysa þann ágreining sem er á milli samninganefndanna. Hann segir að farið hafi verið ítarlega yfir málið og reiknað mikið.

„Það er enn þá ágreiningur til staðar sem við munum reyna að vinna úr í dag ef mögulegt,“ segir Magnús.

Verkfallsaðgerðirnar verða í gangi næstu tólf vikurnar ef ekki semst. Þorbjörn segir þessar aðgerðir umfangsmeiri en þær síðustu. Þannig mun hver læknahópur fara í fjóra daga í verkfall í stað tveggja líkt og síðast. Þá verða engar verkfallslausar vikur inn á milli eins og var fyrir jól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×