Innlent

Gölluð Tívolíbomba skapar stórhættu við Bergstaðastræti

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Flugeldar lýstu upp himininn yfir miðborg Reykjavíkur og þeir sem fylgdust með flugeldunum hjá Hallgrímskirkju höfðu á orði að sjaldan hefði meira verið sprengt. Hjá fjölskyldu við Bergstaðastræti í Reykjavík sem fagnaði áramótum með tuttugu manna matarboði snerist gleðskapurinn upp í andhverfu sína.

Fjölskyldan hafði fest kaup á Tívolíbombu hjá Íþróttafélaginu Leikni sem var ekki af ódýrari gerðinni en hún átti að springa um miðnætti þegar áramótagleðin væri í algleymingi. Og það gerði hún með látum, þegar á henni var tendrað skömmu fyrir miðnætti, fyrst með mikilli ljósadýrð en síðan með stórri sprengingu sem hafði þær afleiðingar að ljósakróna féll niður á matarborði og breytti fínu boði í glerbrotasúpu, húsráðandi skarst í andliti og tvö börn fengu skrámur, þá brotnuðu rúður í húsinu og nærliggjandi húsum og bílar urðu fyrir hnjaski.

Guðmundur Aðalsteinsson, fjölskyldufaðir sem festi kaup á bombunni segir að fjölskyldan sé í sjokki, hálf heyrnarlaus og lemstruð. Það sé mikil heppni að ekki fór enn verr. Níu ára stúlka sem var gestkomandi fylgdist með úr fjarlægð þegar kveikt var í tívolíbombunni. Hending réði því að hún leit í aðra átt þegar sprengingin varð og fékk hún því einungis stóra kúlu á höfuðið.

Fólkið í næsta húsi sneri heim úr áramótagleði um nóttina og varð alvarlega skelkað þegar rúðurnar götumegin voru brotnar. Bjarni Már Bjarnason eigandi hússins segist aldrei hafa upplifað annað eins en hann hafi búið í þrjátíu ár við götuna. Hann var staddur í fjölskylduboði í Kópavogi um miðnættið og fylgdist með ljósadýrðinni í Reykjavík þaðan. Hann óraði þó ekki fyrir því að rúðurnar í húsinu hans væru að springa á sama augnabliki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×