Innlent

Biskup Íslands vill afnema fangelsisrefsingar fyrir guðlast

Bjarki Ármannsson skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir er biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir er biskup Íslands. Vísir/Anton
 Á kirkjuþingi í dag var samþykkt tillaga biskups Íslands um að lýsa yfir stuðningi við frumvarp Pírata um afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana í almennum hegningarlögum, en þar er meðal annars að finna ákvæði um guðlast.

Píratar hyggjast leggja frumvarpið fram þegar þing kemur aftur saman en í tilkynningu frá Biskupsstofu segist Agnes M. Sigurðardóttir taka undir þá skoðun að „lagaheimildir sem setja tjáningarfrelsinu skorður með þessum hætti standist ekki nútíma viðhorf til mannréttinda.“

Sjá einnig: Þingmaður hefur keypt lénið Guðlast.is

Í almennum hegningarlögum er kveðið á um sekt eða fangelsi í allt að þrjá mánuði, gerist maður sekur um guðlast. Árið 1983 varð Úlfar Þormóðsson, þáverandi ritstjóri skauptímaritsins Spegilsins, síðasti núlifandi Íslendingurinn sem hefur verið dæmdur fyrir guðlast. Einnig rannsakaði ríkissaksóknari sérstaklega þátt Spaugstofunnar árið 1997 að beiðni Ólafs Skúlasonar biskups, en ákæra var ekki gefin út.


Tengdar fréttir

Vilja að fólk fái að gagnrýna trúarbrögð

Þingmaður Pírata hefur lagt fram frumvarp til að afnema bann við guðlasti úr almennum hegningarlögum. Hann segir ótækt að banna guðlast í vestrænu lýðræðisríki. Spaugstofumaður segir að ákvæðið ætti að vera löngu farið úr lögum.

Píratar vilja afnema bann við guðlasti

Píratar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um afnám ákvæðis í hegningarlögum sem bannar guðlast. Bannið sæmi ekki lýðræðisríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×