Tvö mörk frá Cristiano Ronaldo og eitt frá Gareth Bale tryggðu Real Madrid öruggan 0-3 sigur á Getafe á útivelli í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Með sigrinum náðu Evrópumeistararnir fjögurra stiga forystu á Barcelona á toppi deildarinnar. Börsungar geta þó minnkað forskotið niður í eitt stig með sigri á Deportivo La Coruna í kvöld.
Staðan var markalaus í leikhléi en þetta var í fyrsta sinn í deildinni á tímabilinu sem Real Madrid mistekst að skora í fyrri hálfleik.
Ronaldo opnaði markareikninginn á 63. mínútu eftir frábæran undirbúning frá Karim Benzema. Portúgalinn fór þar með framúr Raúl yfir þá leikmenn Real Madrid sem hafa skorað flest deildarmörk (88) á útivelli.
Fjórum mínútum síðar bætti Bale við marki eftir sendingu frá James Rodríguez.
James var svo aftur á ferðinni á 79. mínútu þegar hann sendi fyrir frá vinstri á Ronaldo sem skallaði boltann framhjá Jordi Codina í marki Getafe.
Þetta var 27. mark Ronaldos í 17 deildarleikjum í vetur en hann er langmarkahæstur í spænsku deildinni, 11 mörkum á undan Lionel Messi.
Ronaldo og Bale á skotskónum í öruggum sigri Real Madrid
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
