Viðskipti innlent

997 þúsund ferðamenn heimsóttu Ísland á árinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Erlendir ferðamenn í Reykjavík um jólin. Ferðamönnum til Íslands fjölgaði um 24% milli ára.
Erlendir ferðamenn í Reykjavík um jólin. Ferðamönnum til Íslands fjölgaði um 24% milli ára. Fréttablaðið/Andri Marinó Karlsson.
Aðeins vantaði 2.444 ferðamenn upp á að sá milljónasti kæmi til landsins á nýliðnu ári. Fjöldi ferðamanna um Keflavíkurflugvöll, Seyðisfjörð og aðra flugvelli var um 997.556 árið 2014 eða um 190 þúsund fleiri ferðamenn en árið 2013. Aukningin milli ára nemur 23,6%. Þetta kemur fram í tölum Ferðamálastofu.

„Kannski áhugavert að miðað við meðalfjölda ferðamanna um Leifsstöð á dag þá hefði okkur dugað hlaupár til þess að ná milljóninni," segir Halldór Arinbjarnarson, upplýsingastjóri Ferðamálastofu, í samtali við fréttastofu.

Þar fyrir utan eru farþegar með skemmtiferðaskipum en 104.516 farþegar komu til Reykjavíkur með 90 skipum árið 2014, 13,4% fleiri en á árinu 2013 þegar þeir voru um 92 þúsund talsins. Um 96% skemmtiferðaskipa til landsins hafa viðkomu í Reykjavík.

Tæplega þrír fjórðu ferðamanna, 73,3%, árið 2014 voru af tíu þjóðernum. Bretar og Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða um þriðjungur allra ferðamanna en þar á eftir komu ferðamenn frá Þýskalandi, Frakklandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Kanada, Hollandi og Kína. Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum, Kanadamönnum og Þjóðverjum mest árið 2014. Þannig komu 43.400 fleiri Bretar árið 2014 en árið 2013, 32.400 fleiri Bandaríkjamenn, 14.800 fleiri Kanadamenn og 10.100 fleiri Þjóðverjar.

Sé litið til dreifingar ferðamanna eftir árstíðum síðastliðin þrjú ár má sjá að hlutfall ferðamanna utan háannar, það er sumarmánuðanna þriggja, fer hækkandi og var komið í 57,6% árið 2014. Hlutfallsleg aukning utan háannar hefur hins vegar verið mest að vetri til en um 28,9% ferðamanna komu að vetri til árið 2014 en voru 26,9% árið 2013 og 23,6% árið 2012.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×