Í frétt Vísis á nýársdag kom fram að eigendur Hólakaupa, þau Eyvindur Magnússon og Ólafía Sigurvinsdóttir, hafi hætt verslunarrekstrinum vegna mikillar bindingar fyrir fjölskylduna og vinnuálags en í staðinn ákváðu þau að snúa sér að ferðaþjónustu. Haft er eftir Eyvindi að hagnaður hafi verið af rekstrinum öll fimm árin sem þau hafi rekið búðina og hann telji sannarlega grundvöll til að reka verslun á Reykhólum.

Þeir sem eru áhugasamir um að taka að sér kaupmannsstarfið á Reykhólum geta kynnt sér samfélagið þar með því að horfa hér á þáttinn „Um land allt“, en þar var verslunin meðal annars heimsótt og fjallað um óvenju mikla barnafjölgun. Á Reykhólum búa um 130 manns og í Reykhólahreppi alls um 270 manns.
Dæmi eru um verslun í mun fámennari byggð, eins og á Bakkafirði, þar sem um 80 manns búa, en Stöð 2 fjallaði um þá verslun, Mónakó Supermarket, fyrir fjórum árum.