„Við áætlum að þetta verði búið í byrjun næsta mánaðar,“ segir Bjarney S. Lúðvíksdóttir, móðir Brynjars. Greint var frá draumi Brynjars um að smíða slíkt skip í fyrra en hann sendi meðal annars skemmtilegt myndband á Legoland í Danmörku þar sem hann biður um að fá að koma í heimsókn. Söfnun fór af stað hér á landi stuttu eftir að Brynjar rataði í fréttirnar og safnaðist nóg fé til að kaupa kubba handa honum.
„Ótrúlegt nokk var bara mjög mikill meðbyr með þessu verkefni,“ segir Bjarney. „Þetta hefur meðal annars þjálfað í honum þolinmæðina og að taka á móti fólki. Það hefur hjálpað honum mjög mikið.“
Til stendur að færa skipið í Hagkaup í Smáralind í næstu viku þar sem fólk getur fylgst með Brynjari vinna að skipinu og spurt hann út í það.

Einhvern veginn hafa fregnir af verkefni Brynjars borist til umsjónarmanna Discovery, sem fengu að taka símaviðtal við Brynjar um skipið. Bjarney segir að til standi að sýna innslag um drenginn í vinsælum þætti stöðvarinnar eftir rúmlega viku.
„Þetta var svolítið skemmtilegt,“ segir Bjarney. „Hann þurfti að tala ensku og það er alveg ótrúlegt hvað hann nær að klóra sig fram úr því. Það er internetið.“
Ljóst er að margir hafa gaman af því að fylgjast með skipasmíð Brynjars, en verður ráðist í annað svona verkefni þegar skipið er fullklárað?
„Nei veistu, það held ég ekki,“ segir Bjarney og hlær. „Það er komið alveg gott í bili. Það er reyndar eitt verkefni sem okkur langar að vinna, en það er vinnustofa fyrir einhverf börn. Við ætlum að bjóða þeim að koma og gera eigin legó-listaverk.“