Innlent

Píratar vilja rannsaka „ósannsögli“ ráðherrans og „tilraun til hvítþvottar“

Atli Ísleifsson skrifar
Píratar segja þingið og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að leggjast yfir skýrslu umboðsmanns.
Píratar segja þingið og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að leggjast yfir skýrslu umboðsmanns. Vísir/Stefán/Vilhelm
Þingflokkur Pírata vilja að Alþingi rannsaki frekar framgöngu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, gagnvart einstaka þingmönnum, „ósannsögli“ ráðherrans á Alþingi og tilraun hans til hvítþvottar með svokallaðari „innri athugun” ráðuneytisins.

Í tilkynningu frá þingflokknum segir að álit umboðsmanns alþingis um samskipti innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu staðfesti fyrirliggjandi skilning þingmanna Pírata á þeim málsatvikum sem varða samskipti ráðherra við lögreglustjóra, „það er að samskiptin hafi verið óeðlileg, andstæð reglum sem ráðherra bar að virða um sjálfstæði og hlutlægni lögreglunnar og brotið í bága við óskráða reglu stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni.“

Þingflokkurinn segir að Alþingi þurfi að taka álit umboðsmanns til vandlegrar skoðunar og meta í framhaldinu til hvaða ráðstafana þurfi að grípa. „Umboðsmaður víkur til að mynda að ýmsum úrbótum sem hann telur að gera þurfi. Yfir þetta þurfa þingið og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að leggjast.

Álit Umboðsmanns lýtur einungis að afmörkuðum þætti lekamálsins, þ.e. samskiptum ráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu meðan á lögreglurannsókn um lekann stóð. Í krafti eftirlitshlutverks síns framkvæmdarvaldinu á Alþingi enn eftir að taka þá þætti til skoðunar sem legið hafa á ís frá því að Umboðsmaður tók að kanna samskipti ráðherra við lögreglustjórann. Má hér nefna t.d. framgöngu ráðherrans gagnvart einstaka þingmönnum, ósannsögli ráðherrans á Alþingi og tilraun hans til hvítþvottar með svokallaðari „innri athugun” ráðuneytisins.

Þingmenn Pírata leggja á það ríka áherslu að það starf sem fyrir höndum er á vettvangi Alþingis vegna þessa máls í heild verði vandað, ítarlegt og málefnalegt.“


Tengdar fréttir

Segir afskipti Hönnu Birnu óeðlileg

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segir að samskipti Hönnu Birnu við Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra, hafi verið ósamrýmanleg stöðu ráðherra sem yfirstjórnanda lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×