Innlent

Sítrónuskortur á landinu: „Held það séu einhverjir kúrar í gangi“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/getty
Sítróna er allra meina bót og það hefur sýnt sig og sannað í verslunum landsins að undanförnu. Sítrónuskortur hefur gert vart við sig víða og hafa birgjar vart haft undan við að panta inn meira magn.

„Sítrónan virðist vera mjög vinsæl ávaxtategund þessa dagana, meira en að undaförnu. Ég ætla nú bara að skjóta í loftið en ég held það séu einhverjir kúrar í gangi,“ segir Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana.

„Eftir áramót koma upp alls konar trend,“ segir Kjartan Már.vísir/stefán
Kjartan segir það algengt að ákveðin ávaxtategund verði vinsælli en aðrar eftir áramót. „Þá koma upp alls konar trend. Fólk virðist hafa áhyggjur af þyngdinni eftir jólin,“ segir hann.

Sjá einnig: „Heilsufar þjóðarinnar myndi stórbatna ef allir fengju sér sítrónu“

Sem dæmi nefnir hann vatnsmelónur og engifer. Vatnsmelónukúrinn var afar vinsæll árið 2012 en hann virkar þannig að fólk borðar ekkert nema vatnsmelónur í þrjá daga og á meðal annars að hreinsa líkamann og losa hann við bjúg. Sagt er að fólk geti misst allt að þrjú kíló á fyrrnefndum kúr.

Engifer er einnig til margs nýtilegt og sagt afar gott fyrir líkamann. Það á að vera hreinsandi og bólgueyðandi og oft kallað „flensubaninn“. Það er ýmist borðað, drukkið út í heitt eða kalt vatn eða jafnvel sett út í bað, en það er sagt auka blóðflæði. 

Þá er það sítrónan. Hallgrímur Magnússon læknir sagði í samtali við fréttastofu á dögunum að heilsufar þjóðarinnar myndi stórbatna ef allir drykkju sítrónuvatn á morgnanna. Hann segir sítrónuna innihalda mikið af góðum efnum sem geti losað eiturefni úr líkamanum og líkir því við að „skúra líkamann að innan“. Hann mælir með að kreista um hálfa sítrónu í volgt vatn og drekka á tóman maga strax í morgunsárið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×