Lífið

Stóra barnaafmælismálið í Bretlandi: Facebook-samskipti ósáttu mæðranna

Afmælið fór fram í skíða- og snjóbrettamiðstöð í suðvesturhluta Englands.
Afmælið fór fram í skíða- og snjóbrettamiðstöð í suðvesturhluta Englands. Mynd/Plymouth Herald/Getty
Móðir fimm ára bresks drengs sem fékk sendan reikning upp á 16 pund frá foreldrum vinar drengsins eftir hann mætti ekki í afmælið hans reyndi að hafa samband við móður vinarins í gegnum Facebook til að finna lausn á málinu.

Tanya Walsh, móðir drengsins Alex Nash, átti í samskiptum við Julie Lawrence á samskiptamiðlinum eftir að Lawrence hótaði að fara með málið fyrir dómstól þegar foreldrar Alex neituðu að greiða reikninginn. Afmælið fór fram í skíða- og snjóbrettamiðstöð í suðvesturhluta Englands, en sagt var frá málinu í gær.

Breska blaðið Telegraph greinir frá því að foreldrar Alex, Tanya og Derek Nash frá bænum Torpoint, hafi verið allt annað en ánægð með að Lawrence hafi látið senda reikninginn heim til Alex í skólatösku hans.

Telegraph birtir Facebook-samskipti mæðranna í heild sinni.

Tanya Walsh

Hæ Julie. Þetta er mamma Alex. Ég veit ekki hvað gerðist milli þín og Derek, kærasta míns. Mér brá þegar ég sá reikninginn í skólatösku Alex. Ég hafði ekki hugmynd um að það þyrfti að borga fyrir sérhvert barn í afmælinu þar sem þú minntist ekkert á peninga þegar við ræddum saman. Eina ástæða þess að Alex mætti ekki í afmælið var þar sem amma hans og afi voru á leið burt um jólin og eini dagurinn þar sem krakkarnir gátu heimsótt þau var sama dag og afmælið. Ég gerði mér ekki grein fyrir þessu. Á þessum degi ákvað Alex að hann vildi verja tíma með ömmu sinni og afa. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki látið þig vita en ég var ekki með símanúmer eða tölvupóst til að láta þig vita (auk þess vissi ég ekki eftirnafnið þitt, því annars myndi ég fletta þér upp). Ef ég hefði vitað það að ég hefði þurft að greiða ef Alex kæmi ekki, þá myndi ég borga þér, ekkert mál. Mér finnst ekki gaman af því að rífast við fólk og ég myndi kjósa að við gætum leyst þetta má á vingjarnlegum nótum.

Julie Lawrence

Hæ Tanya, ég minntist ekki á peningana þegar við ræddum saman þar sem þetta var barnaafmæli. Það skiptir ekki máli ef þarf að borga fyrir hvern einstakling eða fyrir hópinn í heild ef þeir samþykkja það að koma. Ég fékk það staðfest hjá öllum foreldrum á fimmtudeginum fyrir afmælið hverjir myndu koma þar sem ég þurfti að greiða þann dag, og Derek sagði mér að Alex hlakkaði mikið til og myndi sjá okkur þar. Í mínum huga var það staðfesting. Símanúmerið mitt var á boðskortinu sem Alex fékk sent. Ég hef heldur ekki gaman af því af rífast og þótti það ekki til mikils koma þegar Derek mætti á dyramottuna mína og sagði að ég fengi enga peninga frá honum, frekar dónalega, og ég viðurkenni að það kom mér úr jafnvægi. Þetta er heldur ekkert í fyrsta sinn sem Alex mætir ekki í afmæli sem honum hefur verið boðið í. Mér finnst vingjarnlega leiðin til að leysa þetta mál væri að greiða mér peninginn og láta þetta verða okkur að lexíu. Ég vona að við getum sæst á það? Julie

Tanya Walsh

Hæ Julie. Í hvaða afmæli á Alex eiginlega að hafa farið í? Ég ræddi einu sinni við móður um afmæli en hún hafði aldrei aftur samband til að greina mér frá nánari upplýsingum um afmælið. Fyrir utan það man ég ekki eftir neinum öðrum staðfestum boðum. Ástæða þess að Derek var svo reiður var vegna þess að umslagið var í skólatösku Alex. Þetta mál kemur skólanum ekkert við. Hann ræddi við skólastjórann um þetta og hún sagði að svona gengi gegn reglum skólans. Boðskort í afmæli væru í lagi, en ekki persónuleg skilaboð. Eins og ég hef áður sagt þá var ekkert minnst á peninga þegar við ræddum saman, og mér finnst það ekki viðeigandi að borga þér þessa peninga, þegar ég veit ekki fyrir hvað ég væri að borga. Alex var mjög spenntur að fara í afmælið. Ég vissi það ekki um ömmu hans og afa fyrr en á sjálfum deginum, og hann ákvað að hann vildi frekar verja deginum með þeim. Eins og ég hef áður sagt þá var ég ekki með símanúmerið þitt til að láta þig vita. Og hvaða lexíu ætti ég að vera að læra? Ég er ekki barn, svo vinsamlegast ekki tala við mig eins og ég sé barn. Svo ég svari spurningu þinni, þá er svarið því miður nei. Þetta er ekki ásættanlegt.

Julie Lawrence

Maður greiðir fyrir hvert barn í skíðabrekkunni, þar með talið dekk og sleða og veitingar og þið sögðuð á fimmtudeginum að Alex myndi mæta.

Tanya Walsh

Bara svo að þú vitir það þá kostar 60 pund bara að taka upp mál í dómstólnum. Auk þess þá ætla ég ekki að greiða fyrir eitthvað sem við nýttum okkur ekki.

Julie Lawrence

Það kostar ekki svo mikið.

Tanya Walsh

Jú víst. Auk þess þá held ég að skólinn sé ekki ánægður með að þú hafir blandað þeim í þetta líka. Ég botna ekkert í því af hverju þú ert á eftir blóði okkar og að rægja okkur. Ég hef sagt þér frá ástæðum þess að Alex fór ekki. Ég hef líka sagt þér af hverju ég hringdi ekki. Þú virðist heldur ekki skilja það að ég forðaði mér ekki frá þér í flýti. Ég heyrði ekki að þú kallaðir á eftir mér. Ég þarf að sækja dóttur mína í Carbeile-skólann. Svo ef Alex er hleypt út síðastur þá þarf ég að flýta mér þar sem Evie, tveggja ára dóttir mín, gengur hægt. Það er kannski þess vegna sem þú heldur að ég hafi verið að flýta mér í burtu. Ég hafði enga ástæðu til þess að hlaupa frá þér. Svo vinsamlegast ekki halda einhverju fram sem sannleik þegar þú ert ekkert með allar staðreyndir á hreinu. Kannski ef þú myndir ræða við mig, frekar enn að gera upp hug þinn um hvað hafi gerst þá myndi allt þetta ekki eiga sér stað þessa stundina. Ef þú hefðir komið til okkar til að byrja með og útskýrt þetta með peningana þá hefði ég getað útskýrt þetta með alex og þá hefðum við kannski komist að samkomulagi. Í staðinn þá sendir þú reikning.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×