Kjaramálanefnd Landssambands eldri borgara lýsa yfir undrun sinni á ummælum forsætisráðherra í nýjársávarpi sínu um að búið væri að leiðrétta skerðingar eldri borgara. Nefndin segir að enn sé ólokið við að meta og lagfæra skerðingar á tímabilinu 2009 til 2014.
Í ályktun frá nefndinni segir að talið sé að skerðingarnar á tímabilinu nemi 17 til 18 milljörðum króna og að þá sé ólokið við að draga úr fjármagnstekjuskatti og áhrifa hans á lífeyristekjur.
Þá lýsir nefndin yfir þungum áhyggjum af lokun endurhæfingarrýma á Hrafnistu í Reykjavík, sem þjónar fólki til að gera því kleift að búa lengur heima og auka lífsgæði þeirra. „Sparnaður af því mun auka kostnað annars staðar í heilbrigðiskerfinu,“ segir í ályktuninni.
Kjaramálanefnd telur að ekki megi dragast að stofna embætti Umboðsmanns aldraðra og að þörf fyrir slíkt embætti hafi aukist.
Að lokum segir nefndin að skortur á viðeigandi leiguhúsnæði fyrir eldri borgara auki misskiptingu. Hann sé mjög alvarlegur og hafi valdið hærra leiguverði sem fáir ræði við.
„Í hópi aldraðra er fólk sem á ekki fyrir nauðsynjum út mánuðinn. Hver ber ábyrgðina?“
Segja leiðréttingu ólokið
Samúel Karl Ólason skrifar
