Lífið

Stefán og Gísli Freyr berjast um fyrsta sætið í QuizUp

Birgir Olgeirsson. skrifar
Stefán og Gísli eru í sérflokki í söguspurningum í QuizUp.
Stefán og Gísli eru í sérflokki í söguspurningum í QuizUp. Vísir
Íslenska smáforritið QuizUp hefur notið mikilla vinsælda síðustu misseri og margir sem hafa sökkt sér í þennan skemmtilega spurningaleik frá Plain Vanilla. Á meðal þeirra eru Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, og Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra.

Stefán er sem stendur stigahæstur í söguflokki QuizUp í febrúarmánuði með 8692 stig en fast á hæla hans í öðru sæti er Gísli Freyr Valdórsson með 8496 stig. Það má segja að þeir Stefán og Gísli séu í sérflokki þegar kemur að söguspurningum í þessum spurningaleik því sá sem er í þriðja sæti er með 3650 stig.

Stefán var áður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu en hann fór fyrir rannsókn lögreglunnar vegna leka á upplýsingum um hælisleitandann Tony Omos úr innanríkisráðuneytinu. Gísli Freyr var aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og hlaut dóm fyrir þennan leka.

Stefán öflugur í Útsvari

Stefán hefur greinilega mikinn áhuga á fróðleik en hann er í liði Seltjarnarness í spurningaþættinum Útsvari í Sjónvarpinu. Síðast þegar Stefán var í Útsvari var það daginn sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kynnti niðurstöðu á frumkvæðisathugun sinni á samskiptum Hönnu Birnu og Stefáns. Var það mat umboðsmanns að samskipti Hönnu við Stefán, á meðan lögreglan rannsakaði ráðuneytið, hefðu verið ósamrýmanleg stöðu ráðherra sem yfirstjórnanda lögreglunnar.

Þegar Stefán mætti í Útsvarið um kvöldið þurfti hann að þola nokkur skot frá þáttastjórnendum sem spurðu hann hvort hann ætlaði einhvern tímann að tjá sig um þessa lekamálsrannsókn en Stefán sagðist léttur í bragði gera það ef fimmtán stig fengust fyrir það í Útsvari.

Þegar kom að flokkaspurningunum var tilkynnt að reglum þáttarins hefðu verið breytt á þann veg að nú væri það stigahæsta liðið sem ætti að velja fyrst og var það í þessu tilviki lið Stefáns. Á skjánum blöstu við fjórir valflokkar sem voru: Innanríkisráðuneytið, trúnaðargögn, leynifundir og umboðsmaður.

„Hvenær á þessu einelti að ljúka,“ spurði Stefán léttur í bragði í kjölfarið. Stefán var spurður hvaða flokk hann vildi og svaraði hann: „Heyrðu, umboðsmaður er í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Þáttastjórnendur tilkynntu í kjölfarið að verið væri að fíflast í Stefáni og komu í kjölfarið upp „hefðbundnir“ valflokkar.


Tengdar fréttir

Gísli Freyr greiðir íslenskri konu bætur

Fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra og íslensk kona sem nafngreind var í minnisblaði í tengslum við Lekamálið svokallaða hafa náð sáttum um að Gísli Freyr greiði henni bætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×