Innlent

„Hún var voða glöð að komast heim“

Birgir Olgeirsson. skrifar
Ólöf Þorbjörg.
Ólöf Þorbjörg.
„Allt sem lagar þetta ástand er gott,“ segir Dóra Eydís Pálsdóttir, móðir Ólafar Þorbjargar Pétursdóttur, en Reykjavíkurborg hefur ákveðið að skipa neyðarstjórn yfir Ferðaþjónustu fatlaðra sem Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs borgarinnar, mun fara fyrir.

Þessi neyðarstjórn er skipuð eftir að Ólöf Þorbjörg, sem er átján ára þroskaskert stúlka, var skilin eftir í sjö klukkustundir í bíl frá Ferðaþjónustu fatlaðra í gær. Foreldrar Ólafar hafa tekið þá ákvörðun að Ólöf fari ekki aftur með Ferðaþjónustu fatlaðra fyrr en tryggt er að svona mistök eigi sér ekki stað aftur. „Við erum ekki tilbúin að stökkva á það aftur, þetta þarf að breytast eitthvað,“ segir Dóra Eydís í samtali við Vísi um málið.

Akstursþjónusta á borð við Ferðaþjónustu fatlaðra er fjölskyldunni afar mikilvæg því annars þyrftu foreldrar hennar að sjá um að aka henni til og frá yfir daginn og segir Dóra að erfitt yrði að sinna vinnu meðfram þeim akstri. „Þá þyrftum við að keyra hana tvisvar á dag. Fyrst í skólann, svo í Hitt húsið og svo úr Hinu húsinu og heim,“ segir Dóra en foreldrar Ólafar munu sjá um akstur þangað til fundið hefur verið út úr vanda Ferðaþjónustu fatlaðra.

Hún segir líðan Ólafar eftir aðstæðum en erfitt að átta sig á því hversu mikið hún geri sér grein fyrir stöðunni. „Hún var voða glöð að komast heim. Hún var lengi að sofna í gær og vaknaði snemma þannig að þetta hlýtur að hafa haft áhrif á hana.“


Tengdar fréttir

Svona týndist stúlkan

„Þetta er alveg hrikalega sorglegt atvik,“ segir eigandi fyrirtækisins sem sinnti akstri fyrir ferðaþjónustu fatlaðra í dag þar sem 18 ára þroskaskert stúlka týndist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×