Sport

Sonur Snoop Dogg spilar fyrir erkifjendur uppáhaldsliðs föður síns

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cordell Broadus og Calvin Broadus yngri (Snoop Dogg).
Cordell Broadus og Calvin Broadus yngri (Snoop Dogg). vísir/getty
„Ég stend 1.000 prósent með honum og mun nú henda USC-nærbuxunum mínum,“ sagði rapparinn Snoop Dogg við ESPN í dag eftir að sonur hans valdi sér háskóla til að spila amerískan fótbolta fyrir.

Í dag völdu bestu leikmenn menntaskóla Bandaríkjanna sér háskóla til að spila fyrir, en Cordell Broadus, sonur Snoop Doog, var merktur sem fjögurra stjörnu útherji og sá 26. besti í Bandaríkjunum.

Margir bjuggust við því að Cordell myndi velja USC-háskólann (University of Southern California) sem er mikið stórveldi. Ekki síst vegna þess að faðir hans er gríðarlegur stuðningsmaður USC og missir helst ekki af leik.

Mörg frábær háskólalið á borð við Arizona State, LSU, USC, Florida State, Nebraska, Miami og Notre Dame voru á eftir Cordell sem gæti átt framtíðina fyrir sér í íþróttinni.

Það kom mörgum á óvart þegar Cordell valdi ekki USC og enn óvæntara var að hann valdi annan skóla í Los Angeles. Hann kaus á endanum að taka við háskólastyrk hjá UCLA (University of California).

Þetta gæti í rauninni ekki verið mikið verra fyrir greyið Snoop Dogg því UCLA spilar í hinni sterku PAC-12 deild með USC.

Þó hann hafi sagst í dag ætla að styðja strákinn að fullu þarf hann að taka stóra ákvörðun um hvort liðið hann styður þegar þau mætast næsta vetur.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×