Innlent

Grímur segir Júró-Finnana stórkostlega snillinga

Jakob Bjarnar skrifar
Kari Aalto mun syngja fyrir hönd Finna í Eurovision þetta árið og svo vel ber í veiði að Dr. Gunni og Grímur hittu hann í Montreal árið 2012.
Kari Aalto mun syngja fyrir hönd Finna í Eurovision þetta árið og svo vel ber í veiði að Dr. Gunni og Grímur hittu hann í Montreal árið 2012.
Grímur Atlason fylgist grannt með gangi mála á tónlistarsviðinu, enda er hann framkvæmdastjóri Airwaves-hátíðarinnar miklu. Eurovision-söngvakeppnin hefur ekki beinlínis verið hans tebolli fram til þessa; Grímur hefur til þessa einbeitt sér meira að grasrótinni og framsæknari tónlist. En, nú er áhugi hans vakinn. Og það eru vinir okkar í Finnlandi sem bera ábyrgð á nýfundnum áhuga Gríms á Eurovision.



„Pertti Kurikan Nimipäivät keppa um að komast í Júróvisjón fyrir hönd Finna. Árið 2012 vorum við Gunnar Larus Hjalmarsson á röltinu í Montreal og hittum Kari Aalto söngvara bandsins (Gunni þekkti stjörnuna í sjón) og hann bauð á gigg þá um kvöldið. Með fullri virðingu fyrir Júróvisjón og þeim læknum sem vinna keppnina gjarna hér heima að þá eru Kari og félagar í allt öðrum og betri standard! Áfram Finnland,“ segir Grímur.

Hann hefur í tvígang séð Pertti Kurikan Nimipäivät á sviði. „Þetta eru stórkostlegir meistarar; pönkband í anda Sjálfsfróunar. Textar fjalla um sambýli og félagsmálayfirvöld,“ segir Grímur og helst á honum að skilja að það séu bráðnauðsynleg skilaboð inní hina sérstæðu Eurovision-veröld.

Hér fyrir neðan má sjá Pertti Kurikan Nimipäivät í góðum gír. „Ég held aldrei með neinum. En, þetta eru snillingar. Ég held með þeim,“ segir Grímur -- afgerandi í stuðningi sínum við Finnana þetta árið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×