Innlent

Ásgeir Hannes Eiríksson fallinn frá

Heimir Már Pétursson skrifar
Ásgeir Hannes Eiríksson heitinn.
Ásgeir Hannes Eiríksson heitinn.
Ásgeir Hannes Eiríksson, fyrrverandi alþingismaður, andaðist á Landakotsspítala 14. febrúar sl. 67 ára að aldri. Hann setti sterkan svip á miðborg Reykjavíkur í þau mörgu ár sem hann rak pylsuvagninn á Lækjartorgi.

Ásgeir Hannes fylgi Alberti Guðmundssyni að málum og gekk til liðs við Borgaraflokkinn þegar Albert stofnaði hann árið 1987 og sat á þingi fyrir flokkinn. Fyrst sem varaþingmaður frá 1987 til 1989 en eftir það sem þingmaður til 1991.

Hann lá aldrei á skoðunum sínum um menn og málefni og má segja að oft hafi myndast fjörugir fundir við pylsuvagninn sem hann rak um árabil á Lækjartorgi og í Austurstræti. Hann lét sig málefni SÁÁ varða og reyndist mörgu útigangsfólki vel.

Ásgeir Hannes var í stjórn vináttufélags Íslands og Litháen 1992 til 1994. Hann var virkur pistlahöfundur og skrifaði reglulega greinar í dögblöð. Þá gaf hann úr þrjár bækur, Það er allt hægt, Ein með öllu og Sögur úr Reykjavík. Hann hafði átt við veikindi að stríða frá árinu 2010.

 

Eftirlifandi eiginkona Ásgeirs Hannessar er Valgerður Hjartardóttir en þau eignuðust þrjú börn sem öll lifa föður sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×