Innlent

Áhyggjuefni að Ísland hafi ekki verið valkostur í augum Apple segir þingmaður

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Helgi Hjörvar og Ásmundur Einar ræddu fjárfestingu Apple stuttlega á þingi í dag.
Helgi Hjörvar og Ásmundur Einar ræddu fjárfestingu Apple stuttlega á þingi í dag. Vísir/Daníel/Pjetur
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að það eigi að vera áhyggjuefni þegar alþjóðlegt fyrirtæki sem staðsett sé hér á landi ákveði að flytja úr landi og að Ísland sé ekki einu sinni valkostur þegar kemur að alþjóðlegri fjárfestingu í tæknigeiranum. Þetta sagði hann í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.



Í ræðu sinni fjallaði hann um ákvörðun stjórnenda Apple um að velja Danmörku sem stað fyrir nýtt gagnaver fyrirtækisins. Ísland virðist ekki hafa komið til greina sem staðsetning fyrir gagnaverið.



„Það á að vera okkur verulegt áhyggjuefni að Ísland skuli ekki vera einn af helstu valkostunum þegar kemur að risafjárfestingu í alþjóðlegu gagnaveri,“ sagði þingmaðurinn í ræðunni. Helgi talaði um að það ætti að vera áhyggjuefni því að Ísland hefði forskot af náttúrunnar hendi varðandi náttúrulega kælingu og græna orku, sem væri eftirsótt af gagnaverum.



Benti hann á að Danmörk hefur hvorki meiri náttúrulegri kælingu eða grænum orkuauðlindum en Íslendingar. Þá benti hann á að Danir hefðu ekki boðið Apple ívilnanir vegna fjárfestingarinnar.



Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknar og aðstoðarmaður forsætisráðherra, svaraði Helga í ræðu undir sama dagskrárlið. Sagði hann að auka þyrfti framleiðslu á orku til að laða fyrirtæki eins og gagnaver hingað til lands.



„Ég held að við hljótum að vera sammála um það ég og háttvirtur þingmaður að það er mikilvægt núna að á næstu árum að við aukum hér orkuframleiðslu, sjálfbæra græna orku til þess að geta boðið fleiri fyrirtæki - gagnaver og fleiri fyrirtæki - velkomin hingað til lands. Háttvirtur þingmaður verður þá bandamaður stjórnarliða í því þegar að því kemur,“ sagði Ásmundur Einar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×