Innlent

Kvíabryggja ekkert lúxushótel

Jakob Bjarnar skrifar
Fangar fá aðgang að síma, tölvu og útivist og möguleikar á betrun eru líklega meiri. Á myndinni má sjá Kvíabryggju, Ólaf og Guðmund Inga Þóroddsson formann Afstöðu.
Fangar fá aðgang að síma, tölvu og útivist og möguleikar á betrun eru líklega meiri. Á myndinni má sjá Kvíabryggju, Ólaf og Guðmund Inga Þóroddsson formann Afstöðu.
Fréttastofu hefur borist nokkrar ábendinga frá föngum sem telja það alveg nýtt sem fram kemur í máli Páli Winkels fangelsismálastjóra að menn sem fái þyngri dóm en sem nemur tveimur árum fái kost á því að hefja afplánun í opnu fangelsi, eins og Kvíabryggja telst. Þetta er í kjölfar frétta um að Ólafur Ólafsson, sem kenndur er við Samskip, sé nú kominn á Kvíabryggju. Páll svarar þeirri gagnrýni á öðrum stað hér á Vísi.

En, hvernig er að vera á Kvíabryggju? Fangi á Kvíabryggju og ritstjórnarfulltrúi Afstöðu bloggar, skrifar pistil og telur vert að leiðrétta ýmsan misskilning sem snýr að því að Kvíabryggja séu sumarbúðir fyrir fullorðna, þar sem menn iðka golf og líkamsrækt, lifi nánast í vellystingum. Fanginn segir þetta ekki svo.

Vilja að fangar þjáist

„Reglulega skýtur upp kollinum umræða um lúxushótelið Kvíabryggju. Umræðuna er einna helst að finna í athugasemdakerfum netmiðlanna undir fréttum af dómsmálum þar sem sakborningar eða dæmdir menn koma við sögu. Núna síðast spratt upp umræða í tengslum við dóma sem féllu yfir fyrrum bankastarfsmönnum, en þá mátti sjá hversu almennt það viðhorf virðist vera að hvíld og munaður sé það sem einkenni afplánun dóma á Kvíabryggju,“ skrifar umræddur fangi.

Hann segir að refsingar á Íslandi felist í því að menn eru sviptir frelsi sínu tímabundið og séu flestir eru sammála um að annarskonar refsiaðgerðir, eins og t.d. hverskonar pyntingar séu brot á mannréttindum, svo ekki sé meira sagt, séu vart til fagnaðar. „En ætti ekki markmið fangelsisvistar að vera betrun? Oft og tíðum má greina háværar raddir í þjóðfélaginu sem virðast ekki sammála því. Málaflutningur þess hóps einkennist af mikilli heift og oft er ekki annað að sjá en að einlægur vilji sé fyrir því að fangar þjáist, eða að minnsta kosti hafi það sem verst. En hvernig ætli þetta fólk sjái fyrir sér að fangelsismálum skuli háttað?“

Góður aðbúnaður vænlegri til betrunar

Fanginn segir að frelsissviptingin sem slík sé talsverð refsing. Og þegar fólk talar um Kvíabryggju sem lúxushótel geti aðeins tvennt komið til greina; „það hefur ekki stigið fæti á lúxushótel um ævina eða aldrei farið á Kvíabryggju, nema hvoru tveggja sé. Hér er föngum veitt farsælli tækifæri til betrunar, t.d. með því að þeim er sýnt traust til að hafa aðgang að síma, tölvu og útivist samkvæmt ákveðnum reglum en þrátt fyrir að sá aðbúnaður sem ég bý að hér sé betri en margra annarra fanga hér á landi þarf enginn að efast um að refsing mín sé sjálfkrafa eitthvað minni. En möguleikar mínir á betrun eru líklega meiri.“

Höfundur lýkur máli sínu á því að segja að upp að vissu marki megi skilja að fólk eigi erfitt með að sýna þeim jaðarhópi sem brotið hefur lög samkennd. En ef föngum sé veitt „jákvæð endurhæfing og tryggðar mannsæmandi aðstæður við afplánun sína eru meiri líkur á raunverulegri betrun fangans – sem er augljóslega hagur allra.“

...

Uppfært 15:44


Vegna uppsetningar á síðu þar sem umrædd grein birtist, var gengið út frá því að pistillinn, sem er efni þessarar fréttar, væri eftir Guðmund Inga Þóroddsson sem er formaður Afstöðu. Svo er ekki, heldur er pistillinn eftir fanga á Kvíabryggju, titlaður ritstjórnarfulltrúi Afstöðu. Þetta athugunarleysi skrifast alfarið á blaðamann og er beðist velvirðingar á mistökunum. Fréttin hefur nú verið uppfærð að teknu tilliti til þessa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×